Sveinn Markússon málmsmiður fann snemma að handverkið hentaði honum betur en bóknámið og byrjaði ungur að smíða, hanna og teikna. Átta ára gamall gerði hann húðkeip sem flaut í læknum í Garðabænum. Um líkt leyti bjó hann til forláta Tarzanskýlu eftir uppskrift úr Andrésblaði. Þegar móðir hans sá skýluna spurði hún hvar hann hefði fengið efnið. Ekki stóð á svari: Úr mokkakápunni hennar.
– Sá hún ekkert eftir kápunni?
„Jú, hún gerði það. Samt gat hún ekki fengið af sér að skamma strákinn; hann hafði sýnt svo mikið frumkvæði og hæfileika á sviði hönnunar. Móðir mín, Helga Mattína Björnsdóttir, hefur alltaf staðið með mér í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur.“
Sveinn er það sem kallað er „altmuligmand“ þegar kemur að smíði og ekkert verkefni vex honum í augum, hvorki stórt né smátt. Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, fylgdist nýverið með Sveini meðan hann var að gera við málmlistaverk eftir Ásmund Sveinsson, Hvítu fiðrildin, sem lengi hafði legið undir skemmdum.
„Þetta kom þannig til að fyrir tveimur árum var ámálgað við mig að ég myndi smíða inngangsskilti fyrir Ásmundarsafn. Í framhaldi af því barst í tal að Hvítu fiðrildin þyrftu lagfæringar við og í mars síðastliðnum var komið með verkið til mín. Viðgerðin tók um tvo og hálfan mánuð og nú er verkið aftur komið á sinn stað fyrir utan safnið. En ég hef á hinn bóginn ekki ennþá smíðað eitt einasta skilti,“ segir Sveinn sposkur á svip.
Hvítu fiðrildin tóku sér upphaflega stöðu í garðinum við Ásmundarsafn árið 1968 og við það tækifæri smellti Ólafur K. Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins, mynd af myndhöggvaranum og eiginkonu hans, Ingrid Sveinsson, við verkið. Sú ljósmynd hjálpaði Sveini mikið við viðgerðina enda hafði verkið látið verulega á sjá gegnum tíðina; veðrast vel á túninu, þangað til því var komið fyrir í geymslu árið 1994.
Ekki er sama hvernig gert er við verk af þessu tagi og fyrir vikið fóru Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur, og Viktor Smári Sæmundsson forvörður vandlega yfir málið með Sveini áður en hann mundaði verkfæri sín. Hvað þarf að gera og hvað má gera?
„Það vantaði til dæmis alveg einn vindfangara á verkið; hann var alveg horfinn. Ég fann hins vegar álsnefil í sárinu og vissi þannig að hann hefði verið úr áli. Hinir vindfangararnir tveir eru úr ryðfríu stáli. Þá voru vængirnir orðnir tærðir og illa farnir, þannig að ég smíðaði nýja eftir gömlu vængjunum, nýja jafnvægisstöng með blýlóðum og var gamla blýið hans Ásmundar steypt með. Liturinn á verkinu, sem hafði veðrast, sýndist okkur hafa verið svargrænn en ekki svartur, eða almúgagrænn, eins og Danir kalla það. Danir eiga mörg orð sem vísa í alþýðu manna. Þeir tala til dæmis um sól fátæka mannsins; það er sól sem kastast frá öðrum og efnameiri mönnum,“ segir Sveinn glottandi en hann lærði og starfaði um sjö ára skeið í Danmörku, hjá meistara Tage Andersen. „Ég kann vel við Dani. Þeir eru ágætir.“
Nánar er rætt við Svein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.