Dagpassarnir í dag eru að klárast. Hliðin eru opin. Fólk er mætt á svæðið. Og allt er á réttri leið, eftir „smá kaos“ þegar hliðin voru opnuð í gærkvöldi að Secret Solstice í Laugardalnum og fólk var enn að sækja armböndin sín.
Fljótlega losnaði stíflan þó og fólk komst leiðar sinnar. „Eins og við gáfum út var hert öryggisgæsla í innganginum. Allir voru beðnir um skilríki og svo voru unglingaarmböndin sérstakt mál. Við höfðum varað við þessu en þetta gekk svo bara greitt fyrir sig og röðin var búin um tíuleytið,“ segir Jón Bjarni Steinsson blaðafulltrúi tónlistarhátíðarinnar í samtali við mbl.is.
Þegar mest var voru að því er hann kemst næst um 10.000 á svæðinu. Gert hafði verið ráð fyrir 10-12 þúsund manns og gengu þær spár að mestu eftir, að sögn Jóns Bjarna, þó að vissulega eigi eftir að slá nokkru föstu í þeim málum.
Jón Bjarni er ánægður með störf lögreglu á hátíðinni í gær. „Lögreglan var með mjög öflugt eftirlit hérna í gær, með 3-4 hunda á sama tíma,“ segir hann. Fíkniefnamál hafi ekki verið áberandi heldur hafi flestir verið að skemmta sér fallega. „En það eru alltaf svartir sauðir.“
Jón Bjarni fylgdist með Black Eyed Peas stilla upp í dalnum í morgun og segir allt stefna í heljarinnar kvöld. Sömuleiðis hafi Hatari mætt að undirbúa sitt atriði en þeir stíga sömuleiðis á svið í kvöld.
„Þetta er bara allt samkvæmt áætlun,“ segir Jón Bjarni. Ætli Hatari samsinni því ekki.