„Við sjáum börn yngri en fimm ára ein á flótta. Þau eru að flýja ofbeldi og eru að reyna að komast í öruggt skjól. Heimurinn verður að bregðast við því fólk flýr ekki að gamni sínu heldur af neyð,“ segir Ingunn Sigríður Árnadóttir, lögfræðingur á umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Stokkhólmi.
Fjöldi þeirra sem flúði stríð, ofsóknir og átök fór yfir 70 milljónir árið 2018. Þetta er mesti fjöldi sem Flóttamannastofnun SÞ hefur séð á þeim tæpu 70 árum sem hún hefur starfað.
Árið 2018 var annar hver flóttamaður barn, mörg þeirra (111.000) voru ein og án fjölskyldu sinnar. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Úganda voru þar 2.800 börn á flótta sem eru fimm ára eða yngri og voru ein eða aðskilin frá fjölskyldum sínum.
Ingunn segir starfsfólk Flóttamannastofnunarinnar alltaf reyna að finna lausnir fyrir flóttafólk og eins hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að aðstæður skapist sem neyði fólk á flótta. „Jafnframt er mikilvægt að skapa þær aðstæður að fólk geti sjálfviljugt snúið aftur heim í öruggar aðstæður því það er auðvitað oft besta lausnin ef það er mögulegt,“ segir Ingunn en nærri 4 af hverjum 5 flóttamönnum hafa verið á flótta eða vergangi í aðstæðum sem varað hafa í að minnsta kosti fimm ár. Einn af hverjum fimm hefur verið á flótta eða vergangi í aðstæðum sem varað hafa í 20 ár eða meira.
Á bak við tölur um fólk á flótta eru einstaklingar. Við erum að tala um 70,8 milljónir einstaklinga og margir af þeim eru börn. „Börn sem hafa neyðst til þess að flýja að heiman vegna stríðs eða annarra átaka. Þetta er ekki eitthvað sem börn velja sér heldur neyðast til að gera,“ segir Ingunn.
Fylgdarlaus börn eru sérstaklega viðkvæmur hópur og í fyrra bárust 28 þúsund umsóknir frá fylgdarlausum börnum um alþjóðlega vernd en að sögn Ingunnar er vitað að þau eru fleiri þar sem skráningar eru ófullnægjandi.
„Fylgdarlaus börn eru sérstaklega viðkvæmur hópur og berskjölduð fyrir hvers kyns ofbeldi og misnotkun. Því þau eru auðveld fórnarlömb þeirra sem vilja misnota sér aðstæður þeirra. Þau eiga á hættu að verða þolendur ofbeldis og jafnvel mansals á flóttanum sem getur haft ótrúlega alvarlegar afleiðingar og svipt þau barnæskunni. Afleiðingarnar geta mótað allt þeirra líf. Meðal annars hafa mörg þeirra ekki tækifæri til þess að ganga í skóla og njóta menntunar. Mikilvægt er að leita lausna fyrir þennan hóp og að við reynum að setja okkur í þeirra spor. Að skilja ástæðurnar fyrir flótta þeirra og hræðslu þeirra. Hvernig hægt er að aðstoða þau á sem bestan hátt og koma þeim í þá vernd sem þau eiga skilið. Þetta reynum við að gera meðal annars með því að leggja áherslu á barnvæna nálgun í hæliskerfinu,“ segir Ingunn.
Ingunn hefur starfað á umdæmisskrifstofu UNHCR í Stokkhólmi frá því í október en hún var fyrst þar sem starfsnemi í sex mánuði eftir að hafa lokið meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands vorið 2016. Skrifstofan í Stokkhólmi kemur að málefnum flóttafólks á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, átta ríkjum alls.
Að sögn Ingunnar fjallar meistararitgerð hennar um alþjóðlega vernd og löggjöf á því sviði, bæði evrópska og íslenska löggjöf á þessu sviði. „Málefni flóttafólks voru mikið í umræðunni á þessum tíma og ég hef alltaf haft mikinn áhuga á lögfræðilegum álitamálum á sviði mannréttinda, segir Ingunn þegar blaðamaður spyr hana út í ástæðuna fyrir því hvers vegna hún valdi málefni flóttafólks sem sinn starfsvettvang.
Eftir starfsnámið í Stokkhólmi kom Ingunn aftur til Íslands og starfaði hjá Útlendingastofnun í eitt og hálft ár eða þar til hún réð sig sem lögfræðing hjá UNHCR.
Hún segir að það hafi verið mjög mikilvægt og áhugavert fyrir hana að kynnast starfinu í Stokkhólmi þar sem málefni flóttafólks eru til umfjöllunar á alþjóðlegum vettvangi þegar hún var þar í starfsnámi á sínum tíma. Eins að bera saman stöðu mála í ríkjum Norður-Evrópu.
„Hér á Íslandi einblínum við oft á innlend málefni og því áhugavert að sjá hvað önnur ríki eru að gera. Þetta eykur með manni víðsýni og er mikilvægt fyrir mig sem lögfræðing. Þegar ég kom aftur heim hélt ég áfram að vinna í þessum málaflokki með örlítið ólíka nálgun sem lögfræðingur hjá Útlendingastofnun. Hjá UNHCR hafði ég meðal annars skoðað hvað Ísland var að gera í samanburði við önnur ríki og hjá Útlendingastofnun sá ég hvernig þessir ferlar virka hér á landi,“ segir Ingunn.
Starfið hjá Útlendingastofnun hefur nýst vel við að nálgast þennan málaflokk á annan hátt en hún gerði í námi og starfsnámi. Meðal annars með því að taka viðtöl við fólk sem er raunverulega í þessum aðstæðum að hafa neyðst til þess að flýja.
„Að tala við fólk sem hefur lent í svo hræðilegum aðstæðum að þú getur varla ímyndað þér þær og vinna síðan úr þessum málum. Fara yfir upplýsingar um viðkomandi lönd, það sem er að gerast þar og hvers vegna fólk hrekst á flótta,“ segir hún.
Helstu áherslur í starfi Ingunnar eru alþjóðlegar á sviði flóttamannaverndar en þar sem hún er eini Íslendingurinn sem starfar á skrifstofunni sinnir hún einnig mörgum málefnum sem snúa beint að Íslandi. Skrifstofan vinnur með stjórnvöldum í ríkjunum átta og leiðbeinir þeim við að sinna alþjóðlegum skuldbindingum sínum varðandi flóttafólk, ríkisfangsleysi og kerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Til að mynda að koma málefnum flóttafólks á dagskrá hjá stjórnvöldum í þessum ríkjum og að virkja samfélagið og kerfin þannig að þau uppfylli ákveðna gæðastaðla.
Undanfarin ár hefur hluti af norrænu ríkjunum þrengt flóttamannalöggjöfina og eitt af hlutverkum lögfræðinga Flóttamannastofnunarinnar er að skoða breytingarnar ofan í kjölinn og koma með ábendingar um það sem þeir telja að mætti betur fara.
Tvöfalt fleiri voru á flótta í fyrra en fyrir tuttugu árum og segir Ingunn að talan, 70,8 milljónir, sé samt varlega áætluð, sérstaklega þar sem neyðarástandið í Venesúela endurspeglast einungis að hluta í henni. Alls hafa um fjórar milljónir einstaklinga frá Venesúela yfirgefið land sitt, samkvæmt gögnum frá yfirvöldum í þeim löndum sem tekið hafa við þeim. Þótt meirihluti þeirra þurfi á alþjóðlegri flóttamannavernd að halda voru aðeins rúmlega 340 þúsund sem sóttu um slíka vernd árið 2018.
„Þessi fjöldi, rúmlega 340 þúsund, svarar svo gott sem til allrar íslensku þjóðarinnar. Eins og að allir Íslendingar hafi flúið land og sótt um vernd í öðrum ríkjum á einu ári,“ bendir Ingunn á en um 21 þúsund Venesúelabúar hafa hlotið alþjóðlega vernd. Hversu fáir þeir eru skýrist meðal annars af löngum biðtíma eftir alþjóðlegri vernd. Hún segir að eins og staðan er í Venesúela þurfi flestir sem þaðan flýja á alþjóðlegri vernd að halda og erfitt sé að segja til um hversu margir verði flúnir land í lok þessa árs.
Svíar og Danir hafa að einhverju leyti dregið úr rétti flóttafólks til fjölskyldusameiningar en á Íslandi er sá réttur til staðar þar sem þeir sem skilgreindir eru sem nánustu aðstandendur í lögum um útlendinga geta fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Ingunn segir að UNHCR líti á fjölskyldusameiningu sem grundvallarréttindi fólks sem sé í samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu og aðrar alþjóðlegar reglur.
„Eitt af því sem er mikilvægt að hafa í huga er hvernig fólk verður hluti af samfélagi og á sama tíma þarf samfélagið að vera öflugt í að gera fólki, sem hefur fengið alþjóðlega vernd, kleift að verða hluti af samfélagi. Við þurfum að færa okkur frá einhvers konar sundrungu í að reyna að hjálpa fólki. Þetta er ekki bara undir stjórnvöldum komið heldur öllu samfélaginu, svo sem hagsmunasamtökum, að gæta þess að börn fari í skóla, hafi aðgang að tómstundum og þeim líði vel. Að taka tillit til þeirra sem eiga erfiðara með tungumálið og ýmislegt annað sem getur komið upp á.Til þess þarf að vera sátt í samfélaginu um að aðstoða. Gera samfélagið þannig úr garði að fólk geti lifað með mannlegri reisn í öruggu samfélagi án þess að þurfa að óttast ofbeldi og mannréttindabrot á degi hverjum. Að geta gert þetta með fjölskyldu sinni eru ein af grundvallarréttindum fólks,“ segir Ingunn.
Umræðan um innflytjendur og flóttafólk á Norðurlöndum hefur að einhverju leyti litast af skoðunum fólks sem telur að rekja megi hátt hlutfall glæpa í nágrannaríkjunum til þessa hóps. Ingunn segir að þessi umræða hafi orðið háværari en í flestum tilvikum séu samfélögin reiðubúin til þess að veita þeim sem minna mega sín aðstoð.
„Við erum að sjá áður óþekktar aðgerðir hjá einkafyrirtækjum, einstaklingum og hagsmunasamtökum sem eru að bjóða fram krafta sína í að styðja fólk á flótta. Hvað getum við gert? Við viljum leggja okkar af mörkum,“ segir Ingunn að sé algengt viðkvæði hjá einkaaðilum í dag og hún segir að þetta sé breyting frá því sem áður var er það var talið að málefni flóttafólks væri að mestu hlutverk stjórnvalda.
Ingunn segir að þetta sé í anda sáttmálans um málefni flóttamanna, Global Compact on Refugees, sem var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2018 í kjölfar New York-yfirlýsingarinnar 2016.
Stefnt er að því að halda hnattrænan umræðuvettvang á vegum Flóttamannastofnunarinnar í Genf í desember á þessu ári þar sem fulltrúar yfirvalda koma saman og tilkynna og ræða áheit og áætlanir aðildarríkjanna, samtaka, einkaaðila og stofnana er láta sig mál flóttamanna varða, til þess að vinna að markmiðum sáttmálans, líkt og hvað þeir ætli að gera til þess að bæta samfélagið fyrir þá sem þegar eru á flótta og bæta lagaúrræði þannig að fólk sem neyðist til að flýja heimili sín þurfi ekki að leggja sig og börn sín í lífshættu daglega á flóttanum, segir Ingunn. Markmiðið er að færa áheit og fyrirætlanir um hnattræna samvinnu í þessum efnum að raunverulegum gjörðum og áætlunum og er áætlað að umræðuvettvangurinn verði haldinn á fjögurra ára fresti.
Hún segir að einnig verði rætt um leiðir til að létta álagið á aðalmóttökuríkjunum sem eru nágrannaríki þeirra ríkja sem flestir flýja. Ríkja eins og Líbanon og Tyrklands. Þessi ríki eru að sligast undan álaginu, ekki síst vegna slæmrar stöðu eigin innviða.
„Þetta er eitthvað sem við getum öll sem samfélag staðið með og sýnt þessum ríkjum samstöðu. Hvort heldur sem það er með fjárframlögum, tækni- og sérfræðiaðstoð eða öðrum leiðum.
Sjá möguleika og styrkleika fólks í stað þess að einangra það í biðstöðu. Þetta er oft mjög erfitt í framkvæmd, ekki síst í ríkjum eins og Líbanon þar sem einn af hverjum sex sem þar búa er flóttamaður. Koma stórra hópa hefur mikil áhrif á innviði samfélags sem kannski stendur á brauðfótum fyrir. Þetta er erfitt að takast á við en við verðum að vinna að lausn. Þess vegna er mikið talað um það í dag að þau ríki sem ekki taka við mörgum flóttamönnum, til að mynda vegna landfræðilegrar stöðu sinnar, sýni það í verki hvernig hægt sé að styðja fólk við að koma undir sig fótunum. Við verðum einhvern veginn að sýna hvernig við ætlum að gera það því stríð og önnur átök gera yfirleitt ekki boð á undan sér og geta komið upp nánast hvar sem er. Þetta er verkefni fyrir allt samfélagið og mikilvægt fyrir okkur öll að einblína ekki á vandamál og hindranir heldur líta frekar á lausnirnar. Hvað getum við gert til þess að tryggja fólki mannsæmandi líf?“ segir Ingunn Sigríður Árnadóttir, lögfræðingur hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.