Má ekki leita á fólki án samþykkis

Að sögn lögfræðings er óheimilt að leita á fólki á …
Að sögn lögfræðings er óheimilt að leita á fólki á tónlistarhátíðum án samþykkis þeirra. mbl.is/Arnþór

„Lögreglan má ekki leita á fólki nema það gefi samþykki sitt,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður í samtali við mbl.is um þær fréttir sem bárust af tónlistarhátíðinni Secret Solstice í gær. Þar var sagt frá því að 18 fíkniefnamál hefðu komið upp á svæðinu.

Sigrún starfar fyrir Snarrótina, samtök um skaðaminnkun og mannréttindi. Hún segir að samtökunum hafi borist ábendingar um ólögmætar leitaraðgerðir lögreglu í gær. „Við fengum þær fregnir að þeim, sem ekki gáfu samþykki sitt fyrir leit, var hótað handtöku og flutningi á lögreglustöð,“ segir hún. „Þetta fólk átti þannig í hættu á að missa af tónleikunum,“ segir hún.

Að sögn Sigrúnar telst brot á friðhelgi fólks að leita …
Að sögn Sigrúnar telst brot á friðhelgi fólks að leita á því að því óviljugu. mbl.is/Arnþór

Sigrún segir að í slíkum tilvikum sé alls ekki um að ræða frjálst samþykki fólks fyrir leitinni. „Það má segja nei en ef einhver segir nei getur lögregla handtekið viðkomandi, flutt hann niður á lögreglustöð og fengið úrskurð dómara um að leita á honum. Það er langt ferli og rökstuddur grunur er matskennt hugtak, sem dómari þarf að leggja mat á,“ útskýrir hún.

Hundarnir sem fylgja lögreglu séu oft þeir sem „rökstyðja gruninn.“

Því gætu að sögn Sigrúnar tilfelli komið upp þar sem einhver er handtekinn eftir að neita lögregluþjónum um að leita á sér, svo er farið með hann niður á lögreglustöð, hann er látinn bíða á meðan leitað er úrskurðar dómara en þegar sá fáist ekki sé viðkomandi sleppt lausum. Hann var samt látinn bíða.

Og „sá sem verður fyrir því að leitað er á honum og ekkert finnst, hann á rétt á bótum og við erum nú að bjóða upp á ókeypis aðstoð við að sækja þessar bætur,“ segir Sigrún. Hún segir að bætur fyrir ólögmæta frelsissviptingu geti hlaupið á hundruðum þúsunda.

„Þetta eru þvingunarúrræði sem fela í eðli sínu í sér brot á mannréttindum, friðhelgi og persónufrelsi,“ segir Sigrún. „Fyrir utan það hefur löggjafinn viðurkennt að þau feli í sér skaða án tillits til þess hvort lögreglan misbeitti valdi sínu eða ekki.“

Sigrún segir í þessu samhengi vert að velta fyrir sér hvar mörkin eru dregin um það hvaða vald lögregla hefur þegar kemur að einkalífi fólks. „Þó að þetta virðist saklaust og fólk heima hugsi að fólk eigi bara að láta sig hafa leitina, þá er þetta ansi fljótt að vinda upp á sig,“ segir Sigrún og á við inngrip lögreglu í einkalíf borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert