Meiri tími fer í það hér á landi að halda aga í kennslustundum á unglingastigi í samanburði við hin Norðurlöndin og að sama skapi fer minni tími í eiginlega kennslu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókninni TALIS.
Svör kennara á Íslandi í könnuninni benda til þess að lakari agi sé í skólastofum hér en annars staðar á Norðurlöndum. Um 40% kennara á unglingastigi eru sammála þeim fullyrðingum að í upphafi kennslustundar þurfi að bíða nokkuð áður en nemendur gefa hljóð, einnig segjast þeir tapa töluverðum tíma vegna þess að nemendur trufla kennsluna.
TALIS er alþjóðleg rannsókn þar sem skoðuð eru viðhorf kennara og skólastjórnenda til starfa sinna en hún er framkvæmd reglulega á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Niðurstöður rannsóknarinnar, sem lögð var fyrir vorið 2018, voru kynntar í vikunni en Ísland tók nú þátt í TALIS í þriðja sinn. Kennarar og skólastjórar á unglingastigi allra grunnskóla hérlendis voru í úrtaki könnunarinnar og var svarhlutfallið um 75%.
Nánast 2/3 íslenskra kennara hafa farið til útlanda í ferð sem er skipulögð af skólanum þeirra, sveitarfélagi eða skólaskrifstofu. Það er tvöfalt hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum. Einnig hafa íslenskir kennarar farið oftar til útlanda vegna starfsins að eigin frumkvæði. Flestir þeirra sem farið hafa til útlanda vegna starfsins sem kennarar eða í kennaranáminu hafa gert það í öðrum erindagjörðum en þeim sem tilgreind eru í fyrirframgefnum valmöguleikum. Um 38% hafa gert það sem hluta af kennaramenntun sinni. Fátítt er hér að ferðalögin tengist því að fylgja skiptinemum en það er algengt á Norðurlöndunum.
Hlutfall kvenkennara á unglingastigi er hér um 73%. Í hinum norrænu ríkjunum er hlutfallið 66% að meðaltali.
Meðalaldur kennara á unglingastigi er þessi, eftir kyni: Konur 46,5 ár; karlar: 45,5 ár. Þetta er svipað og annars staðar á Norðurlöndum að meðaltali.
Um 2/3 hlutar kennara á unglingastigi fóru í hefðbundið kennaranám. Um fimmtungur tók kennsluréttindi eftir nám í faggrein. Fleiri konur fóru í hefðbundið kennaranám.
Frétt mbl.is
Meðal helstu niðurstaðna rannsóknarinnar, samkvæmt tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu: