„Munum aldrei mæta á mínútunni“

Øyvind Lorentzen, umdæmisstjóri lögreglunnar í Finnmörku. Ekki reyndist unnt að …
Øyvind Lorentzen, umdæmisstjóri lögreglunnar í Finnmörku. Ekki reyndist unnt að hitta Lorentzen í eigin persónu þar sem skrifstofa hans er rúma 250 kílómetra frá Mehamn, en myndir með þessu viðtali tók ljósmyndari vefmiðilsins iFinnmark, samstarfsmiðils mbl.is í Mehamn-málinu. Ljósmynd/Oddgeir Isaksen/iFinnmark

„Helsti kosturinn við samfélag á borð við Finnmörku er að okkur er í lófa lagið að skapa okkur yfirsýn. Við vitum hverjir eru til vandræða hér og það hjálpar okkur eðlilega í því að bregðast við afbrotum einstakra brotamanna eða hópa þeirra. En hér er um langa vegi að fara og við munum aldrei mæta á mínútunni, slíkum mannskap munum við aldrei hafa á að skipa.“

Þetta segir Øyvind Lorentzen, umdæmisstjóri lögreglunnar í Finnmörku, í samtali við mbl.is um harmleikinn í Mehamn snemmvors, áskoranir við löggæslu þar sem um langa vegi er að fara og þá gagnrýni sem lögreglumbættið hefur sætt síðan Gísli Þór Þórarinsson var skotinn til bana á heimili sínu aðfaranótt 27. apríl. Titillinn umdæmisstjóri er hér tilraunakennd þýðing og nokkur einföldun á norskunni leder for geografisk driftsenhet sem að höfðu samráði við fjölmiðlafulltrúa Finnmerkurlögreglunnar, Silju Arvola, var talið komast næst starfsskyldum Lorentzens.

„Öll lögregluumdæmi hér í Noregi sæta gagnrýni aðlútandi viðbragðstíma annað veifið,“ segir Lorentzen snemma í samtalinu, „það sem hér skiptir höfuðmáli er að meðalviðbragðstími okkar er innan þeirra marka sem lögreglan í Noregi hefur sett sér.“ Hann segir lögreglu sífellt vinna að því að ná fram árangursríkari starfsaðferðum og öflugra forvarnastarfi gegn afbotum. „En við játum það alveg að við getum bætt okkur á þeim vettvangi,“ segir hann.

Aðeins ein lénsmannsskrifstofa lögð niður

Talið berst að nýlegri umdæmabreytingu norsku lögreglunnar, hrókeringu sem á norsku heitir nærpolitireformen og var ætlað að tryggja að lögregla væri alltaf til staðar í sem flestum byggðum Noregs auk þess að staðarlögregla væri ávallt í stakk búin til að takast á við þau afbrot sem mest kvæði að í hverri byggð. Breyting þessi tók gildi 1. janúar 2016 en ekki eru allir á einu máli um að hæft hafi verið það er skotið var til og hafa þær raddir heyrst að nærpolitireformen hefði betur hlotið nafnið fjernpolitireformen eða breytingin sem færði lögregluna fjær.

„Vegna þeirra vegalengda sem um er að fara hér í Finnmörku var aðeins ein lénsmannsskrifstofa lögð niður hér við breytinguna,“ svarar Lorentzen, „skrifstofa í Nesseby þar sem einn maður sat. Við höfum þar með algjörlega sama fyrirkomulag og fyrir umdæmabreytinguna. Við höfum hins vegar skipulagt verklag okkar öðruvísi og mér finnst sú breyting hafa verið til hins betra,“ segir umdæmisstjórinn og leggur þunga áherslu á lokaorð sín.

Blaðamann fýsir að vita í hverju sú bæting felist. „Við höfum til dæmis byggt upp mun öflugri rannsóknardeildir sem gera okkur kleift að rannsaka alvarleg afbrot og grípa tafarlaust til þeirra aðgerða sem þörf er á þegar alvarleg mál koma upp,“ segir Lorentzen. „Til dæmis þegar manndrápið í Mehamn kom upp gátum við strax flogið með tæplega 20 manna teymi tæknimanna, rannsakenda og aðgerðastjóra á vettvang. Þetta hefði aldrei verið mögulegt fyrir umdæmabreytinguna,“ segir hann.

Øyvind Lorentzen, t.v., ásamt Morten Daae, deildarstjóra ákærudeildar lögreglunnar í …
Øyvind Lorentzen, t.v., ásamt Morten Daae, deildarstjóra ákærudeildar lögreglunnar í Finnmörku. Ljósmynd/Oddgeir Isaksen/iFinnmark

„Umdæmabreytingin sneri ekki eingöngu að lögreglunni heldur einnig samvinnu lögreglunnar við sveitarfélögin, heilbrigðiskerfið, [vinnumálastofnunina] NAV, ýmis samtök sjálfboðaliða og það hvernig allir þessir aðilar geti átt sér samvinnu á þverfaglegum og fyrirbyggjandi vettvangi sem miðar að því að koma auga á áhættuna, hópa og einstaka aðila samfélagsins sem á einhvern hátt teljast ógn. Markmiðið núna er að vinna með sveitarfélögunum að því að koma í veg fyrir afbrotin áður en þau eru framin,“ útskýrir umdæmisstjórinn.

Svöruðu ekki ítrekuðum hringingum

Þessi sýn kemur illa heim við staðfestar heimildir mbl.is og vefmiðilsins iFinnmark frá tveimur heimildarmönnum í Mehamn um að lögreglu hefði verið margtilkynnt um að Gunnar Jóhann, hálfbróðir Gísla Þórs heitins, sem játað hefur á sig að hafa banað hálfbróður sínum, hefði haft aðgang að skotvopni áður en til voðaverksins kom auk þess sem lögreglu var augljóslega kunnugt um nálgunarbann Gunnars gagnvart Gísla sem hún sjálf kynnti honum símleiðis. Eins virðist sem lögregla hafi kosið að skella skollaeyrunum við ítrekuðum hringingum kærustu Gísla í kjölfar meintrar ógnandi hegðunar Gunnars. Þessu hefur lögreglan í Finnmörku áður svarað neitandi í samtölum við nefnda fjölmiðla og aðra og stendur þar orð gegn orði eins og sakir standa.

En hvað þá með hina löngu bið eftir lögregluaðstoð aðfaranótt 27. apríl, þá staðreynd að áhöfn sjúkrabifreiðar sat dýrmætar mínútur fyrir utan heimili Gísla Þórs án leyfis til að fara inn, á meðan þess var beðið að lögregla tryggði vettvang, og gagnrýni Trond Olaussen, bæjarstjóra í Gamvik, sveitarfélaginu sem Mehamn tilheyrir, á að ekki sé lögregla á staðnum samhliða því sem fíkniefnaneysla stigmagnist og alvarlegum ofbeldismálum fjölgi?

„Lénsmannsskrifstofan í Gamvik er nú reyndar í Mehamn svo þar hefur alltaf verið lögreglustöð. Í Lebesby er einnig lögreglustöð og þessar stöðvar hafa sameinast um vaktakerfi í 20 ár,“ svarar Lorentzen, en lögreglumenn frá Kjøllefjord, þar sem nefnd lögreglustöð í sveitarfélaginu Lebesby er staðsett, tæpa 33 kílómetra frá Mehamn, brugðust þó einir við árásinni á Gísla Þór 27. apríl og voru rúmlega 40 mínútur á vettvang.

Eftirgrennslan mbl.is í gær leiddi í ljós að lénsmannsskrifstofan í Mehamn er aðeins opin tvo daga í viku, mánudaga og fimmtudaga klukkan 10 til 14.

Þyngja ekki aðstandendum meira en orðið er

Lorentzen segir það ekki rétt að langur viðbragðstími hafi skipt sköpum í Mehamn-málinu. „Krufning hins látna sýndi að hann lést á mjög skömmum tíma af völdum skotsárs sem rauf lærslagæð hans. Þótt lögreglan hefði verið í fimm mínútna fjarlægð hefði lífi hans ekki verið borgið. Lögreglunni er sérstaklega mikilvægt að þyngja ekki aðstandendum meira en orðið er, sem hafa fengið þá hugmynd gegnum fjölmiðla að maðurinn hafi legið og þjáðst lengi áður en andlát hans bar að höndum. Þannig var það ekki,“ fullyrðir Lorentzen.

Hvað með fjölgun alvarlegra ofbeldismála innan vébanda lögreglunnar í nyrsta fylki Noregs?

„Sem betur fer höfum við ekki staðið frammi fyrir mörgum manndrápum hér í Finnmörku,“ svarar Lorentzen. Hann segir að fyrir utan málið nú í vor hafi upp á síðkastið verið framið þar eitt manndráp í fyrra og tvö árið 2017 sem þó var sama málið, Kirkenes-málið svokallaða þar sem tæplega sextugur maður skaut taílenska eiginkonu sína og 12 ára son hennar til bana og vakti hvort tveggja óhug og athygli á sínum tíma.

„Þar hafði útkallstími heldur ekkert að segja, útilokað var að tekist hefði að bjarga lífi fórnarlambanna í þessum tveimur málum [í fyrra og hitteðfyrra],“ segir Lorentzen og bætir því við að fullyrðingar bæjarstjórans um aukna ofbeldistíðni séu úr lausu lofti gripnar. „Finnmörk hefur alltaf strítt við háa tíðni ofbeldisglæpa, hærri en annars staðar í landinu. Við vitum að það er að meðaltali meira um ofbeldi norðan heimskautsbaugs. Hérna í Finnmörku ríkir karllæg samfélagsskipan [n. maskulint samfunnspreg] sem er olía á eld ofbeldisins. Við þekkjum ekki ástæðu þessa en við fylgjumst grannt með þessu og öll ofbeldistilvik eru kærð hér.“

Með þeim orðum er botninn sleginn í viðtal við Øyvind Lorentzen, umdæmisstjóra lögreglunnar í Finnmörku, sem ekki kom til greina að hitta í eigin persónu þar sem akstursvegalengd frá Mehamn til Vadsø, þar sem hann situr, er 254 kílómetrar, vonandi töluvert lengri vegalengd en lögreglan í Finnmörku, þessu norska fylki sem er 6.000 ferkílómetrum stærra en Danmörk, þarf nokkru sinni að halda í útkall þar sem taflið stendur um líf eða dauða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert