Norðurál sýknað af skaðabótakröfu

Álver Norðuráls í Hvalfirði.
Álver Norðuráls í Hvalfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði Norðurál af skaðabótakröfu Ragnheiðar Jónu Þorgrímsdóttur hrossabónda. Ragnheiður krafði Norðurál um bætur vegna hrossadauða og rýrnunar á verðmæti landareignar hennar vegna mengunar.

Krafa Ragnheiðar var byggð á því að Norðurál hefði sýnt af sér saknæma háttsemi með því að víkja frá skráðum hátternisreglum starfsleyfis hvað varðar losun mengandi flúors á árunum 2006 og 2007. Var vísað til þess að slys vegna bilunar í verksmiðju Norðuráls í ágúst 2006 hafi leitt til þess að mikið magn flúors hafi sloppið út í andrúmsloftið.

Taldi hún að mengunin hafi valdið veikindum og dauða hrossa í hennar eigu auk þess sem hún hafi rýrt verðmæti landareignar hennar að Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit.

Fyrir dómi hafnaði Norðurál því að hafa brotið skráðar hátternisreglur í starfsemi sinni og að álverið bæri ekki ábyrgð á veikindum hrossanna.

Landsréttur féllst ekki á að Norðurál hefði brotið gegn starfsleyfi um árlegt hámarksmagn flúors né að bilunin hefði falið í sér brot á starfsleyfinu. Ekki var talið að sýnt hefði verið fram á orsakasamband milli flúormengunar og veikinda hrossanna og var álverið því sýknað af kröfu Ragnheiðar.

Málskostnaður fyrir Landsrétti var látinn falla niður.

Dómur Landsréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert