Sigríður Hlynur fær kynrænt sjálfræði

Sigríður Hlynur, að skírnarnafni Sigurður Hlynur, er bóndi á Öndólfsstöðum. …
Sigríður Hlynur, að skírnarnafni Sigurður Hlynur, er bóndi á Öndólfsstöðum. Nú sér hann fram á að fá að heita Sigríður í þjóðskrá.

Sú ráðstöfun að Alþingi hafi samþykkt ný lög um kynrænt sjálfræði í vikunni virðist veita áformum bóndans á Öndólfsstöðum um að fá að heita Sigríður Hlynur brautargengi. Hann er að minnsta kosti sannfærður um það.

Ég ætla að fá að heita Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson,“ segir Sigríður. Hann er að vísu alltaf kallaður Hlynur en það má liggja á milli hluta um sinn. Sigríður skal það vera. „Ég geri ráð fyrir að vera þá líka kallaður Sigga núna,“ segir hann hýr í bragði.

„Eins og ég sagði í fyrra finnst mér að ég eigi að fá að heita í höfuðið á ömmu minni, óháð því hvaða kyni ég er af,“ segir Sigríður. Hann reiknar með svari frá Þjóðskrá Íslands á næstunni og segist hlakka til að fá nafninu loks breytt. „Samkvæmt nýjum lögum eiga þeir að láta mig fá nafnið án þess að senda það til mannanafnanefndar,“ segir hann.

Sigríði finnst sjálfsagt að fá að heita í höfuðið á …
Sigríði finnst sjálfsagt að fá að heita í höfuðið á ömmu sinni, óháð því hvers kyns hann er.

Barátta hans hófst síðasta vor þegar hann sendi inn umsókn um að fá að breyta nafninu sínu í Sigríður en henni var hafnað á grundvelli þess að það væri kvenmannsnafn. Nú er öldin önnur.

Sigríður, sem í þjóðskrá heitir enn Sigurður, fær ekki betur séð en að með nýju lögunum sé búið að taka út þau ákvæði sem hindruðu það áður að hann fengi að skrá sig sem Sigríði í þjóðskrá. „Ég geri ráð fyrir að þetta sé komið. Ég gat ekki heyrt annað en að lögfræðingur þjóðskrár hafi talið svo vera,“ segir Sigríður og vísar til viðtals lögfræðingsins við RÚV. 

Þar kemur fram að breytingin sem komi með lögunum feli í sér að ekki lengur skuli stúlku endilega gefa kvenmannsnafn eða dreng karlmannsnafn. Og jafnframt að sú breyting gildi bæði um foreldra sem eru að gefa börnum sínum nafn og fullorðna sem vilja taka nýtt nafn.

Frumvarpið var samþykkt á þriðjudaginn og Sigríður sendi strax inn umsókn um breytingu á nafninu sínu. Hann segist ekki vita hversu langan tíma Þjóðskrá Íslands muni taka í að meta umsóknina en að ljóst sé að henni beri að samþykkja nafnið. Sigríður nefnir að Samtökin 78 hafi einmitt hringt til hans í gær og bent honum á að nú gæfist honum færi á að láta aftur á þetta reyna.

„Við sjáum með frumvarpinu örlítið minni ríkisafskipti af einkalífi fólks. Ég er ekki á móti ríkisafskiptum af hinu og þessu en af einkalífi fólks á ríkið ekki að skipta sér,“ segir Sigríður loks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka