Nokkur erill hefur verið hjá lögreglu í kvöld og nótt vegna skemmtanahalds en flest mál hafa þó verið leyst nokkuð farsællega og einungis sex gista í fangaklefa, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan 5 í morgun. Óvenju mikið var um minniháttar slagsmál og stympingar í miðbænum er líða fór á nóttina, að sögn lögreglu.
Secret Solstice tónlistarhátíðin hófst síðdegis í gær í Laugardalnum og að sögn lögreglu fór hún vel fram. Alls komu upp 18 fíkniefnamál, það fyrsta strax um klukkan 16:00, og svo jafnt og þétt á meðan hátíðinni stóð í nótt. Um var að ræða bæði kannabisefni og örvandi efni.
Sex ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og aðrir fimm voru handteknir fyrir ölvunarakstur.