Grassláttur er sagður ganga vel í Reykjavík og er önnur umferð þegar hafin, að sögn Björns Ingvarssonar, deildarstjóra Þjónustumiðstöðvar borgarlandsins.
Sláttur hófst tíu dögum fyrr í ár en vant er og er það vegna góðviðrisins sem borgarbúar hafa fengið að njóta í sumar. Sláttur hefst venjulega í kringum 26. maí, en í ár hófst hann 16. maí sl.
„Fyrstu umferð er lokið og lauk að mestu fyrir 17. júní. Það er ekkert endilega meiri sláttur í ár en við byrjuðum 10 dögum fyrr vegna veðurfarsins,“ segir Björn í Morgunblaðinu í dag. Grunn- og leikskólalóðir og borgarland verður slegið þrisvar, við þjóðvegi í þéttbýli fjórum sinnum og almenningsgarðar allt að 15 sinnum.