„Frá aldamótum og fram til 2015 var ég að selja fasteignir á Íslandi með eins árs hléi þegar ég seldi fyrri fasteignasöluna sem ég átti og flutti til Spánar í eitt ár í miðju hruni. Ég hafði aldrei verið á sjó áður en ég kom hingað, tók reyndar einn túr sem kokkur á togara, á Vigra, og ég held að þeim hafi fundist maturinn allt í lagi.“
Svo segist Sigurði Hjaltested frá Vatnsenda við Elliðaár, útgerðarkóngi í Mehamn í Norður-Noregi, frá í spjalli við mbl.is í gær en Sigurður er nú að kaupa sinn þriðja bát og veiðir kóngakrabba í Barentshafinu sem hann selur lifandi til Asíu og hefur vel upp úr. Keilu, þorsk og ýsu veiðir Sigurður einnig og hefur öðlast nýtt líf og fullkomið frelsi til að fara oft á ári að heimsækja Anfield og horfa á sína menn í Lifrarpollinum.
„This is the worst lammekjøtt jeg har smaket!“ segir Sigurður við kærustu sína og sambýliskonu, Hege Guldbjørnsen, á leið heim úr búðinni í gærkvöldi þegar talið berst að finnsku lambakjöti. Eftir fjögur ár í Noregi skilur hann alla talaða norsku en á það til að grípa í enskuna þegar norskan hans hrekkur ekki til. Hún er þó öll að koma til og Sigurður getur vel bjargað sér á norsku þegar hann nennir. Hann nennir bara ekki alltaf.
„Svo þarna 2011 eða '12 fer ég að sjá á Facebook hjá vinum mínum hvað allt sé gott í Noregi. Þá var ég að drepa sjálfan mig, sat tíu til fimmtán tíma á dag við tölvuskjá að gera ekki neitt og var orðinn allt of þungur, 160 kíló,“ rifjar Sigurður upp.
Hann var þá að vinna hjá fasteignasölunni Skeifunni sem hann hafði keypt hluta í, en áður hafði Sigurður stofnað og átt fasteignasöluna Klett eftir að hafa tekið próf til löggildingar sem fasteigna- og skipasali. „Svo við förum út saman, ég, Davíð og Þórður vinir mínir, til að skoða aðstæður í Rødøy [í Nordland í Noregi].“
Sigurði leist ekki illa á Nordland en fór fljótlega að heyra að veiðin væri mun betri í Finnmörku og meira um krabba þar. Svo fór að þeir þremenningar keyptu tvo báta, annan í Mehamn og hinn í Sandefjord í Suður-Noregi. Lyktaði málum svo að Sigurður keypti nyrðri bátinn af félögum sínum og hélt til róðra í Mehamn við Barentshaf.
„Heyrðu, þá kaupi ég fyrsta bátinn minn og það er báturinn sem fer niður,“ segir Sigurður frá og þykir ekki stætt á öðru en að spyrja hann um þennan sjávarháska sem hann lenti í föstudaginn 13. apríl í fyrra.
„Það var nú svolítið fyndið,“ hefur Sigurður frásögn sína en hann er mikill sögumaður og mbl.is ákveður að gefa honum bara orðið á meðan hann segir frá:
„Eftir á get ég hlegið að þessu fyrst ég lifði af, en þarna er ég að fara út á föstudagsmorgni þrettánda og ég hugsaði með mér „Djöfull, á maður að vera að fara út á föstudeginum þrettánda?“ en jú jú það var sjóveður og þá þarftu bara að fara út,“ segir Sigurður og hlær dátt.
„Ég fer bara út og þegar ég er að sigla til baka hugsa ég „Djöfulsins bull er þessi föstudagur þrettándi!“ ég hafði aldrei veitt eins mikið, var með troðfullan bát, er að keyra til baka og ég er ekki að grínast, svona tíu mínútum eftir að ég hugsa þetta er ég að sigla hérna fyrir Kinnarodden og fæ þá tvær risaöldur aftan á mig og sjóraufarnar fara undir [opin sem sjórinn streymir út um þegar þilfarið fyllist af sjó].“ Sigurður glottir við tönn í leðursófanum í stofu sinni við upprifjunina.
„Ég horfi bara á bátinn fyllast og hringi beint í Kjartan [Þorleif Kjartan Jóhannsson] vin minn og segi bara „Ég er að segja þér það Kjarri að ég er að fara niður!“ og bið hann að hringja á björgunarbátinn, ég mundi bara ekki númerið hjá björgunarsveitinni,“ segir Sigurður og öskrar af hlátri í sófanum.
„Svo skelli ég bara á hann og er að fara að kalla Mayday, ég er að fara niður. Svo fer báturinn bara niður, ég hef engan tíma til að fara í flotbúning eða neitt maður, hann var ofan í lúkar og þú ferð ekkert þangað niður þegar báturinn er að sökkva. Ég var í vinnubuxum, gammosíum og kuldagalla og þetta verður svo þungt þegar maður er kominn ofan í,“ segir Sigurður.
„Ég hef rétt tíma til að fara og losa björgunarbátinn. Þarna var ég nýbúinn að kaupa bátinn og var ekki búinn að tékka neitt á öryggismálum um borð,“ segir Sigurður og brosir að hætti hins kærulausa Íslendings sem heldur að allt reddist. „Þá var hann festur með svona strapp-bandi og ég ætlaði aldrei að geta losað hann. Ég veit ekki hvaðan mér kom aflið í það en ég náði að rífa bandið í sundur, það á nú ekki að vera hægt.
Ég henti þá björgunarbátnum út, hann blæs upp og ég er bara að leita að hnífnum sem er í öllum björgunarbátum til að skera mig lausan og fara frá, því ef báturinn fer niður getur hann sogað þig með. En þá var það þannig að báturinn er að hallast á stjórnborða og þegar ég er að klifra um borð í björgunarbátinn sneri hann sér og ég fæ öll möstrin í bakið af fullum krafti. Það var helvíti vont reyndar.
Þá man ég að ég hugsaði „Já já, þú ert sem sagt að ná því að sökkva tveimur bátum á fimm mínútum!“ því björgunarbáturinn var að fara niður og ég þurfti að hoppa úr honum og það var nú helvíti fyndið að þegar ég hoppa úr björgunarbátnum flýtur björgunarhringurinn fram hjá. Ég gríp í hann og set hann utan um mig og ákveð þá bara að synda í land, ég sá til lands.“
Er þarna var komið sögu fóru heilladísirnar að brosa við Sigurði. „Þá sé ég að bátur sem er þarna skammt frá að taka upp net er að snúa í áttina að mér, þeir hentu bara öllu frá sér og komu í áttina að mér. Ég náði þá taki á fiskikari sem var á floti þarna og hékk á því. Ætli ég hafi ekki verið svona hálftíma í sjónum. Ég fann ekkert fyrir kulda, adrenalínið var alveg í botni. Svo þegar ég var kominn upp á þilfar á bátnum sem bjargaði mér fór ég að skjálfa eins og hrísla,“ segir Sigurður og hlær tröllahlátri.
„Og eftir þetta hugsaði ég með mér „Ókey, maður ætti kannski ekkert að vera að fara út föstudaginn þrettánda,“ og þarna fyrr um daginn hafði ég einmitt verið að dásama hvað ég var heppinn í túrnum með stútfullan bát af afla,“ rifjar Sigurður upp og hlær enn einu sinni sínum smitandi hlátri.
Sigurður er hægt og bítandi að verða einn af útgerðarkóngum Mehamn. Var hann ekki að kaupa sinn þriðja bát núna? Blaðamann rámar í það í forspjalli viðtalsins. „Ég reyndar er að kaupa númer tvö núna og er að bíða eftir númer þrjú. Draumurinn er að eiga þrjá báta og geta átt mér töluverðan frítíma án þess að vinna of mikið. Núna var ég að koma frá Tromsø og var þar að sækja síðasta bát sem ég keypti, 31 fets Kleopötru. Svo er Hege, kærastan mín, skráð fyrir Malo-bát sem ég á og Magnús sonur minn verður skráður fyrir þriðja bátnum. Í fyllingu tímans mun hann svo kaupa þann bát af mér og reka hann sjálfur,“ segir Sigurður og horfir dreymnum augum út á Barentshafið sem blasir við úr stofu hans.
Téður Magnús hittist tvisvar fyrir um helgina en var að mestu upptekinn við eldamennsku í 250 manna samísku brúðkaupi í nágrannabænum Kjøllefjord. Hann rak inn nefið í miðju viðtali og var eðlilega spurður út í brúðkaupið. „Þetta gekk ágætlega þannig séð, við vorum með hlaðborð með 650 matarskömmtum og þetta er líklega ömurlegasta eldhús sem ég hef komið inn í,“ segir Magnús. „Það eru engin takmörk fyrir því hve mikið Samar geta étið,“ segir hann hlæjandi.
Á morgun er Magnús á leið út á sjó með föður sínum. „Já, þegar ég er ekki á sjónum er ég að elda hjá Kolla [Kolbjørn Kristoffersen kokki bæjarins]. Ég er að aðallega að gera honum greiða af því að hann fær enga frídaga, hann sér um eldhúsið á hótelinu og er mest í því að elda ofan í moldríka Rússa sem koma hingað með þyrlum auk þess að sjá um brúðkaup og fermingar,“ segir Magnús.
Hege Guldbjørnsen, kærasta Sigurðar, rær með manni sínum út og dregur kóngakrabbann úr iðrum Barentshafsins. Áður annaðist hún matseld á elliheimili svo viðbrigðin hljóta að vera nokkur. Er það ekkert mál?
„Nei nei, mér finnst þetta bara stórfínt,“ segir Hege, „þetta er auðvitað puðvinna líkamlega séð en sjávarloftið er bara svo hressandi og svo er þetta bara svo gaman,“ segir húsmóðirin sem verður 46 ára í ágúst og hefur nýlokið við að þrífa jeppa þeirra hjóna og skúra alla íbúðina meðan á viðtalinu við Sigurð stóð.
Sigurður lætur vel af starfinu um borð. „Þú getur verið í tíu, fimmtán, tuttugu tíma úti að draga línu. Svo klárarðu bara kvótann þinn, eða reyndar geturðu veitt eins mikið af ýsu, ufsa og keilu og þú vilt því það er frí veiði á þær tegundir fyrir báta undir 15 metrum,“ útskýrir Sigurður.
„Krabbinn er samt gullið,“ segir sægreifinn. „Það er nánast engin vinna í kringum hann. Þú tekur upp allan kvótann á þremur til fjórtán dögum. Hann er svo tekinn í móttöku hérna og haldið lifandi þangað til hann fer á markað í Asíu. Aðalmiðstöðin er í Suður-Kóreu og þaðan er hann sendur um alla Asíu,“ segir Sigurður.
„Við erum að fá rosalega gott kílóverð núna í ár, 210 krónur [3.075 ISK]. Þeir eru helvíti seigir þessir krabbar, þeir eru settir í sjósundlaugar og fluttir nokkrir saman í frauðkössum með flugi til Asíu. Svo er sett blautt handklæði yfir þá meðan á flutningnum stendur, sumir drepast auðvitað en þetta eru rosalega harðgerð kvikindi,“ segir Sigurður og brosir yfir hörku fórnardýranna.
„Svo er þeim bara stillt fram í búrum á veitingastöðunum og gestirnir fá þá ferska á diskinn. Það fæst miklu hærra verð fyrir krabba þarna niður frá en hér,“ segir Sigurður.
Hann segir mjög gott að hafa upp úr fisk- og krabbaveiðum í Finnmörku, í raun þurfi duglegur sjómaður þar bara að vinna sex mánuði á ári. „Aðalvinnan er að taka upp þorskinn, það getur tekið hálfan til einn mánuð, en ef þú ert á netum tekur það ekki meira en viku til tíu daga. Skakið [handfæri] tekur lengri tíma, þú ert þá kannski mánuð að klára kvótann.
Ef þú vilt eiga þér fínt líf og geta ferðast og svona þarftu ekki að vinna meira en fjóra til sex mánuði á ári, en svo geturðu náttúrulega bara unnið eins mikið og þú vilt. Margir gera það fyrst þegar þeir eru að borga upp bátinn og svona, en auðvitað er það alltaf þannig að því meiri frítíma sem þú hefur þeim mun meiri tekjur þarftu,“ segir fyrrverandi fasteignasalinn og núverandi sægreifinn í Mehamn, Sigurður Hjaltested að skilnaði og skellihlær í sófanum.