Þeim fjölgar um fjögur prósentustig sem styðja innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins, að því er fram kemur á vef MMR. Stuðningur við orkupakkann mælist nú 34% miðað við 30% í síðustu könnun.
Á sama tíma fækkar þeim sem segjast andvígir innleiðingu hans og segjast 46% nú vera andvígir samanborið við við 50% í síðustu könnun. Þeir sem segjast ekki taka afstöðu eru 20% svarenda, en voru 19% síðast.
Meðal stuðningsfólks Vinstri Grænna sögðust 44% vera fylgjandi orkupakkanum, sem er aukning um 18 prósentustig frá síðustu könnun en 23% þeirra kváðust andvíg, samanborið við 55% í síðustu könnun.
Stuðningur við orkupakkann jókst einnig meðal stuðningsmanna Framsóknarfólksins eða um 12 prósentustig og mældist nú 34% en 44% kváðust andvíg. Í könnun MMR segist 33% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans en 48% andvíg.
Þeir sem kváðust vera stuðningsmenn Miðflokksins voru merkjanlega meira andvígir orkupakkanum en aðrir og eru 90% þeirra andvígir og um 1% fylgjandi. Þá sögðust 34% stuðningsmanna Pírata vera andvígir en 43% fylgjandi.
Andstaðan var minnst meðal þeirra sem styðja Samfylkinguna eða 15% á móti 73% sögðust fylgjandi innleiðingu orkupakkans. Stuðningsmenn Viðreisnar eru hinsvegar mest fylgjandi orkupakkanum eða 74% þeirra en 18% eru andvíg.
Þá segjast 46% karla vera andvígir og 36% þeirra fylgjandi innleiðingu á meðan 47% kvenna eru andvígar pakkanum og 30% þeirra fylgjandi. Afgerandi munur er á afstöðu ef tekið er tillit til búsetu, þannig eru 54% andvíg innleiðingu á landsbyggðinni, en 42% íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Könnunin var framkvæmd sjöunda til fjórtánda júní og var svarfjöldi 988.