„Þetta hefur legið fyrir töluvert lengi, alveg frá því 2016, þegar íslensk stjórnvöld og bandarísk skrifuðu undir samkomulag um aukna viðveru Bandaríkjamanna og síðan frá 2017 þegar teknar voru ákvarðanir um viðhaldsframkvæmdir í Keflavík,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um áform Bandaríkjahers um stóraukna uppbyggingu sem fyrirhuguð er á vegum hersins á Keflavíkurflugvelli.
Að því er segir á vef RÚV, sem fjallað hefur um málið að undanförnu, er um að ræða fyrstu uppbyggingaraðgerðir á vegum Bandaríkjahers á íslenskri grundu frá því að herliðið yfirgaf landið árið 2006. Fyrirhuguð er meiri háttar uppbygging, þar sem meðal annars verður sett upp stækkað flughlað og einnig byggð upp færanleg aðstaða fyrir hermenn. Deiliskipulagið á Keflavíkurflugvelli er í vinnslu.
Í breyttri fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi rétt fyrir sumarfrí var kveðið á um að 300 milljónum yrði varið í uppbyggingu á innviðum í tengslum við skuldbindingar Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu. Sú fjárhæð á að verða eins konar mótframlag við uppbyggingu Bandaríkjamanna hér á landi. Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, sátu hjá við afgreiðslu þess hluta fjármálaáætlunarinnar en samþykktu síðan áætlunina sem heild.
Katrín hefur áhyggjur af auknum hernaðarumsvifum á norðurslóðum, eins og hún ræðir hér í samtali við mbl.is.
Hefurðu áhyggjur af því að þetta muni auka sýnileika hers hér á landi?
„Það er öllum kunnugt um afstöðu mina og míns flokks í því. Við erum ein flokka andstæð veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og studdum einmitt ekki þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland af þeim sökum. Auðvitað er það þó svo að hún er ákveðin með lýðræðislegum hætti á Alþingi og hluti af henni eru meðal annars aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin,“ segir Katrín.
„Við ákváðum þó þegar við fórum í þessa ríkisstjórn að við myndum fylgja þessari stefnu. Það liggur hins vegar fyrir að hér verður ekki herseta á nýjan leik, þrátt fyrir aukin umsvif nú“ segir hún.
Þó að færanleg herstöð, sem hefur verið rædd í þessu samhengi, verði ekki staðsett hér á landi með beinum hætti, þá gerir fyrirhuguð uppbygging henni að einhverju leyti kleift að starfa.
„Herstöðin verður ekki staðsett hér á landi en það liggur fyrir að Bandaríkin eru með víðtæka uppbyggingu víðar í Evrópu um þessar mundir,“ segir Katrín.
Vekur það þér ekki ugg í brjósti?
„Aukin hernaðarumsvif í Norðurhöfum ættu auðvitað að vera okkur Íslendingum áhyggjuefni, ekki síst ef þau færast yfir á norðurslóðir, þar sem hefur ríkt ákveðinn skilningur á því að hernaðarumsvif eigi að vera í lágmarki. En ég tel einmitt mikilvægt að við aukum opinbera umræðu um öryggis- og varnarmál almennt og ræðum þessa þróun. Við Íslendingar hljótum að hafa áhyggjur af þessari þróun,“ segir Katrín.
Reynist þér erfitt flokks þíns vegna að standa við svona skuldbindingar, meðal annars vegna óánægju í grasrótinni?
„Það lá alveg fyrir þegar við fórum inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf að úrsögn úr NATO væri ekki á dagskrá, ekki frekar en síðast þegar við fórum inn. Þannig að allir gengu með opin augun inn í það,“ segir Katrín.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson þingmenn Vinstri grænna tóku sérafstöðu í málinu. Virðir þú þeirra ákvörðun?
„Þau studdu nú fjármálaáætlunina sem heild,“ segir Katrín en Andrés og Rósa Björk gerðu athugasemdir við ákveðnar tillögur í fjármálaáætluninni, þó að á endanum hafi þau greitt atkvæði með áætluninni í heild, þar sem meðal annars var kveðið á um að 300 milljónum yrði varið í uppbyggingu innviða hér á landi vegna skuldbindinga Íslands í Atlantshafsbandalaginu.
Sérðu á eftir því að þessir fjármunir fari í þetta frekar en aðra málaflokka, eins og þróunarsamvinnu?
„Þó að þetta komi svona út, liggur það fyrir og kemur fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar að okkar framlög til þróunarsamvinnu miðast við hlutfall af landsframleiðslu. Þau framlög hafa verið ákvörðuð í þróunarsamvinnu á Alþingi og verða uppfærð í takt við hana,“ segir Katrín.
Allir sáttmálar um kjarnorkuafvopnun í uppnámi
Hvað heldurðu að áform Bandaríkjahers um aukna uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli muni hafa í för með sér? Hvað þýðir þetta?
„Eins og ég hef sagt finnst mér mikilvægt að auka opinbera umræðu um þetta mál. Það hefur komið fram að viðvera hermanna hefur aukist hér á landi. Það er ekki eins og hér séu ekki þegar mannvirki og töluverð viðvera hermanna. Hún hefur verið mjög mikil síðustu tvö ár. Þess vegna segi ég að það er mjög brýnt að við aukum umræðu um þessi mál á opinberum vettvangi, enda umhugsunarefni fyrir okkur, sem erum staðsett hér á Norður-Atlantshafi, þessi auknu hernaðarumsvif,“ segir Katrín.
Af hverju telurðu að Bandaríkin séu að styrkja stöðu sína enn frekar?
„Það liggur fyrir á síðasta NATO-fundi sem ég sat síðasta sumar var rík áhersla Bandaríkjamanna á að auka framlög, ekki aðeins sín heldur einnig annarra ríkja, til þessara mála. Það er þá greinilega vaxandi áhuga á Norðurhöfum af þeirra hálfu,“ segir Katrín. Rússar hafa þar verið að sækja í sig veðrið.
Hvað rædduð þið Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, í þessum efnum?
„Ég hef rætt þessi mál við Stoltenberg og ég og Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddum þetta einnig. Þar lýsti ég þeirri skoðun íslenskra stjórnvalda að það væri mikilvægt að halda norðurslóðum sem eins friðsamlegu svæði og unnt væri. Við vildum sporna gegn vígvæðingu á því svæði. Síðan ræddum við kjarnorkuafvopnun sérstaklega og við Stoltenberg ræddum þau mál einnig, þar sem sú staða er komin upp að nánast allir sáttmálar um kjarnorkuafvopnun eru í uppnámi. Það eru sannarlega blikur á lofti þegar kemur að því,“ segir Katrín.
„Grundvallarstefna íslenskra stjórnvalda er að leita friðsamlegra lausna. Það er alltaf það sem við höldum á lofti í okkar öllum samskiptum,“ segir Katrín loks.