„Hér er verið að innleiða þessu nýju lög eins og hjá öðrum sveitarfélögum á landinu. Ég lít ekki á þetta sem áfellisdóm eða falleinkunn heldur leiðbeinandi álit,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, um úttekt gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar á þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var fjallað um úttektina og þjónustan ekki sögð í samræmi við ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og haft eftir formanni Öryrkjabandalagsins að úttektin sögð falleinkunn fyrir Hveragerðisbæ, en í lögum nr. 38/2018 er sveitarfélögum gert skylt að hafa frumkvæði að því að kynna sér aðstæður fatlaðs fólks og gera því grein fyrir rétti til þjónustu samkvæmt lögum.
„Við eigum bágt með að túlka niðurstöðurnar með þeim hætti sem þarna kemur fram,“ segir Aldís í samtali við mbl.is. „Ég lít á þetta sem leiðbeinandi álit, sérstaklega núna þar sem við erum að innleiða ný, viðamikil lög sem eru mikil breyting frá því sem áður var og mér finnst úttektaraðilinn gera sér glögga grein fyrir því.“
Í úttektinni segir að gera megi ráð fyrir að það taki sveitarfélög einhvern tíma að gera þær breytingar á framkvæmd þjónustu sem ný lög kalla á, en þau tóku gildi 1. október 2018.
Þá gerir Aldís athugasemd við það að ekki hafi verið reynt að hafa samband við hana eða forstöðumann velferðarþjónustunnar við gerð fréttar Stöðvar 2 af málinu, en þar er Aldís, bæði sem bæjarstjóri og formaður Sambands sveitarfélaga, sögð bera mikla ábyrgð.
„Frá því að málaflokkurinn færðist yfir til sveitarfélaganna höfum við kappkostað að sinna þessum málum vel og talið að við værum að gera það. Í grunninn hefur þessi úttekt ekki gert annað en að staðfesta það að langflestir eru ánægðir með þá þjónustu sem veitt er, þó alltaf megi gera betur.“
Við gerð úttektarinnar var samband haft við 26 notendur eða aðstandendur notenda þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ sem bjuggu í heimahúsum og svöruðu 22 símakönnun um þjónustuna, en 12 þeirra reyndust vera með þjónustu frá Velferðarþjónustu Árnesþings.
Taldi helmingur svarenda að þeir þyrfti aukna þjónustu en helmingur var á heildina litið mjög eða frekar ánægður með þjónustuna og voru átta af tólf svarendum mjög eða frekar ánægðir með framkomu starfsmanna. Þá sögðu þrír þjónustuna uppfylla þarfir þeirra að öllu leyti, fjórir að nokkru leyti, þrír að litlu leyti og einn að engu leyti.
Þeir tíu sem ekki voru með þjónustu voru spurðir hvort þeir hefðu verið með þjónustu eða væru á biðlista og nefndu flestir mikilvægi aðgangs að upplýsingum um þjónustu. Fimm nefndu að þá vantaði þjónustu eða sæju fram á aukna þjónustuþörf á næstunni, en aðeins einn þeirra var á biðlista eftir þjónustu.