Þorbjörg Gísladóttir landsliðsþjálfari unglinga í áhaldafimleikum var mætt upp á Keflavíkurflugvöll í morgun þegar hún fékk þær fréttir að flugi SAS til Kaupmannahafnar hefði verið frestað.
„Ég held bara að allir sem áttu að fara í þetta flug hafi verið mættir, þetta var algert kaos,“ segir hún. „Fólk virtist ekki vera búið að fá þessar upplýsingar heldur frétti þetta bara á vellinum.“
SAS hafði þegar endurskipulagt ferðir fólksins og allt var það með öðrum flugfélögum en því sjálfu. En fólkið var vitaskuld á leiðinni í allar áttir. „Einn var á leiðinni á fund í Varsjá og hann hljómaði ekki sáttur,“ segir Þorbjörg við mbl.is.
Og hún var ekki sátt sjálf. „Við vorum aldeilis mættar upp á flugvöll í morgun. Það var mikil óhamingja með þetta,“ segir Þorbjörg, sem átti flug til Kaupmannahafnar með SAS klukkan 10.30. Þaðan skyldi hún fljúga til Vínar, þaðan sem stóð til að keyra til Györ í Ungverjalandi.
Þangað var hún á leiðinni ásamt Laufeyju Birnu Jóhannsdóttur, Íslandsmeistara í unglingaflokki stúlkna í áhaldafimleikum, á heimsmeistaramót unglinga í áhaldafimleikum.
Fluginu þeirra var breytt. „Nú fljúgum við til Frankfurt klukkan hálfeitt í kvöld og þaðan til Vínar og þaðan keyrum við. Þetta þýðir að Laufey missir af æfingunni fyrir generalprufuna á mótinu,“ segir Þorbjörg og segir að það sé óþægilegt, að þurfa að mæta beint í generalprufu á svona móti. Laufey keppir á föstudaginn.
Þorbjörg á ekki þetta eitt við SAS að sakast af því að í gær lenti drengjaliðið, sem að vísu einn maður skipar en einnig þjálfarar, í miklum seinkunum og óþægindum með flugið sitt. „Þeir mættu síðan hálftöskulausir til Györ í gær,“ segir Þorbjörg.
Mbl.is hefur farið skýringa á leit við SAS en þær hafa ekki borist. Öllum flugferðum félagsins var aflýst til og frá Keflavíkurflugvelli í dag, að því er virðist með stuttum fyrirvara.