„Þyrfti þá að læra íslensku“

Séra Gabriel Are Sandnes er ákaflega hláturmildur maður með þægilega …
Séra Gabriel Are Sandnes er ákaflega hláturmildur maður með þægilega nærveru. Hann ræddi við mbl.is um sorgina norðan heimskautsbaugs, þverrandi kirkjusókn í Noregi og vildi fá að vita um áhuga Íslendinga á spíritisma. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Kirkjan í Mehamn er svipmikil bygging þar sem hún gnæfir yfir þessu litla sjávarþorpi við Barentshafið. Hún er langkirkja byggð árið 1965 og tekur 203 í sæti. Þangað lá leiðin síðdegis á föstudag til móts við þjónandi prest Gamvik-sóknar sem heitir hinu viðeigandi nafni Gabriel Are Sandnes.

Séra Sandnes er nýkominn úr fjölmennri útför sem hann þjónaði við um hádegisbil, raunar svo fjölmennri að töluverð umferðarteppa myndaðist á veginum í nágrenni kirkjugarðsins sem ekki er við kirkjuna heldur nálægt flugvelli bæjarins. Hrókera þurfti viðtölum þeirra bæjarstjórans vegna veikinda þess síðarnefnda en ekki raskaði það ró guðsmannsins. „Ég bíð bara eftir þér í kirkjunni, þú kemur bara þegar þú kemur,“ sagði Sandnes í símtali.

Guðsmaðurinn horfir til himins þennan fallega veðurdag í Mehamn á …
Guðsmaðurinn horfir til himins þennan fallega veðurdag í Mehamn á föstudaginn. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Þetta gekk eftir og sat klerkur í fullum skrúða í forkirkjunni er gest hans bar að garði. Þetta er hávaxinn og brosmildur maður, grannur á vöxt, hárið grátt og ennið hátt. Yfir Sandnes hvílir einhver stóísk ró, talandi hans er mildur og nærveran afskaplega þægileg, líklega eitthvað sem hægt er að tileinka sér á tæplega 50 ára embættistíð en Sandnes tók vígslu á því herrans ári 1971.

Heillast af starfi með manneskjum

Hann er 76 ára gamall og kom töluvert flatt upp á blaðamann sem sá fyrir sér mun yngri mann eftir tvö símtöl við klerk vikuna fyrir fundinn. „Ég er löngu kominn á eftirlaun,“ segir Sandnes frá þegar við höfum fengið okkur sæti til hliðar við altarið, undir augliti frelsarans sem prýðir altaristöfluna á einni stórri aðalmynd auk fjögurra minni mynda sem sýna sögusvið þekktra biblíusagna.

„Starf með manneskjum hefur alltaf heillað mig, því hef ég sinnt öll þessi ár og það veitir mér ákveðinn tilgang og stað í veröldinni,“ segir prestur og rökstyður þar með þá ákvörðun að hlaupa undir bagga með Gamvik-sókn og þiggja þar brauð tímabundið í prestleysinu, en séra Maria Dale, sem stjórnaði minningarathöfn um Gísla Þór Þórarinsson heitinn í þessari sömu kirkju laugardaginn örlagaríka 27. apríl, flutti sig um set og tók embætti annars staðar.

Kirkjan í Mehamn setur mikinn svip á þetta litla bæjarfélag …
Kirkjan í Mehamn setur mikinn svip á þetta litla bæjarfélag við Barentshafið. Hún er langkirkja, byggð 1965 og tekur 203 í sæti. Þarna hélt Maria Dale, fyrrverandi sóknarprestur brauðsins, hjartnæma minningarathöfn um Gísla Þór Þórarinsson heitinn 27. apríl. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Sandnes, sem kemur frá nágrenni Kristiansand í Suður-Noregi eins og glöggt má ráða af framburði hans með vægu skrollandi r-i, segist þó ekki óvanur guðsþjónustu í nyrstu byggðum Noregs. „Ég var allan áttunda áratuginn prestur hér í Vestur-Finnmörku, í Måsøy. Þar vorum við með biskup sem var hálfgerð goðsögn, Monrad Norderval, sem var sjómaður að aukastarfi og stundaði þá iðju víða, meðal annars á Svalbarða, ég veit nú ekki hvort hann kom nokkurn tímann til Íslands,“ rifjar sálnahirðirinn upp glaðbeittur á svip.

Ekki var farið dýpra í sæbiskup þennan í viðtalinu en stutt rannsókn leiddi í ljós að Norderval, sem lést árið 1976, var nafntogaður selveiðimaður, tók háskólapróf í samísku sem hann talaði auk norskunnar og skrifaði fjölda bóka sem eftir titlum að dæma snerust allar um guðdóminn og fiskinn (Maðurinn og báturinn, Á bylgju 2,4, Af sjómannsblóði og Himinn og haf eru nokkur dæmi um titla í lauslegri þýðingu blaðamanns).

Augljósir kostir við lítil brauð

Auk embættisins í Måsøy segist Sandnes einnig hafa verið hér í Gamvik-sókn um fjögurra mánaða skeið fyrir þremur árum svo hann þekkir til. Skammt lifir þó dvalarinnar því seinasta sneið afleysingabrauðs hans er í nánd. Kennimaðurinn aldraði er á förum í þessari viku. Óhjákvæmilega berst talið þá að þessum viðvarandi hörgli á kirkjunnar mönnum hér í nyrstu byggðum. Hvað veldur þessu?

„Margir prestar eiga sér fjölskyldu sunnar í landinu, jafnvel foreldra sem komnir eru af léttasta skeiði. Fólk vill vera nálægt sínu skylduliði. Mér leið reyndar mjög vel sjálfum þegar ég var hérna áður, mér kom svo vel saman við fólkið,“ segir guðsmaðurinn og andlit hans stekkur sundur í breiðu brosi.

Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

„Augljósir kostir eru líka við að þjóna á litlum stöðum,“ heldur hann áfram. „Þar bjóðast mun fleiri færi á að skapa tengsl við fólkið, þetta verður að hálfgerðum viðskiptatengslum í stærri stöðunum, þú ferð bara úr einni jarðarför og brúðkaupi í það næsta, persónuleg tengsl verða af mun skornari skammti, fólkið þekkir í raun ekki prestinn sinn,“ segir Sandnes og lofsyngur hin smærri brauð.

„Þetta snerti fjölda manns hér“

Talið berst að nóttinni í endaðan apríl, þeirri síðustu í lífi Gísla Þórs heitins sem bæjarbúar hafa ekki sparað frásagnirnar af um helgina, ýmist sem uppsprettu náungakærleiks og hjálpsemi, liðtækum söngvara og gítarleikara og almennu valmenni. Séra Sandnes var ekki kominn til starfa á þessum tíma en hefur auðvitað rætt við fjölda fólks um mál hálfbræðranna.

„Ég hef talað við marga og framkvæmdastjóri kirkjunnar, hún Tonje [Kristoffersen], hún kom til dæmis töluvert að þessu máli og eins þáverandi sóknarprestur, Maria Dale, sem hélt hér minningarathöfn og hafði opna kirkju fyrir þá sem vildu koma og kveikja á kerti. Þetta snerti fjölda manns hér og var auðvitað ægilegur atburður,“ segir presturinn og hryllir sig.

„Fólk skilur auðvitað eftir sig spor, það hefur unnið með öðru fólki og myndað vinatengsl og þetta er alveg skelfilegt,“ segir Sandnes.

Hugað að sálmunum. Dvöl Sandnes er senn á enda í …
Hugað að sálmunum. Dvöl Sandnes er senn á enda í Mehamn, þessi 76 ára gamli prestur heldur heim í vikunni til að sinna konu sinni sem glímir við alvarlegt krabbamein. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Talið berst að sorginni og sorgarviðbrögðum. Er munur á sorginni í smáum afskekktum byggðarlögum og þeim stærri? „Það birtist kannski fyrst og fremst þannig að í litlu byggðarlögunum skynjar fólk sorg annarra betur og tekur hana inn á sig. Á stærri stöðunum er þetta kannski meira þannig að hver og einn er að fást við sína sorg og sorgarviðbrögð í einangraðra umhverfi. Fólk er eðlilegra að leita til annarra með þjáningu sína í smábæjunum,“ segir klerkur og talar líkast til af reynslu.

„Fólk hefur legið látið heima hjá sér í mánuð“

„Í Ósló er einmanaleikinn áberandi og hann er víða. Að eldast í höfuðborginni og eiga sér engan aðstandanda er nokkuð sem er þungbært að standa frammi fyrir. Þetta held ég sé öðruvísi í litlu bæjunum. Ef þú sést ekki í tvo daga hér fer fólk að athuga með þig. Við getum borið það saman við fjölda tilfella í Ósló þar sem fólk hefur legið látið heima hjá sér í mánuð og enginn veltir því fyrir sér,“ segir presturinn dapur í bragði.

En hvernig eru norskir prestar í sveit settir til að veita áfallahjálp, takast á við áfallastreituraskanir og aðrar andlegar þjáningar sóknarbarnanna? Hljóta þeir sérstaka þjálfun í slíku í námi sínu eða á námskeiðum síðar?

„Fyrir okkur er samtalið kannski það mikilvægasta,“ svarar hinn vígði. „Hjálpræðið felst í hlustuninni, fólk léttir af sér farginu með því að tala og finna að á það er hlýtt. Margir hafa þörf fyrir að segja sömu söguna aftur og aftur til að finna sátt. Í morgun talaði ég í eina klukkustund við manneskju sem þjáist af kvíða. Slík mál geta verið erfið, þú lest ekki bara einhverja fræðibók og veist þá allt um hvað það er að stríða við alvarlegan kvíða,“ segir Sandnes, hrukkar ennið og lítur snöggvast út um gluggann. „Sama er hvað þú lest, það kemur seint í staðinn fyrir að gefa þér tíma til að hlusta á fólk.

Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Sumir hafa engan að tala við og þá verðurðu að geta gefið tíma. Tíminn er svo snar þáttur í þessu öllu í nútímasamfélaginu. Þú þarft að bíða eftir að fá tíma hjá sálfræðingum og geðlæknum, þú ferð á biðlista sem getur verið langur. Þá er það sem við prestar getum gert að gefa okkur tíma og ræða við fólk, hlusta á það,“ útskýrir viðmælandinn.

„Þetta skapar svo í raun annað vandamál líka,“ heldur sá hempuklæddi áfram. „Þú átt maka og börn kannski, þar skapast ákveðnir árekstrar ef þú ert síknt og heilagt upptekin(n) af öðrum. Ef konan segir við þig „Hjónaband þitt er meira við söfnuðinn en mig,“ ja þá ertu kominn á refilstigu,“ segir Sandnes en getur reyndar ekki varist því að skella upp úr um leið.

Var með samískt brúðkaup á laugardaginn

Hefur hann sjálfur verið staddur á þessum slóðum? „Ég hef upplifað það að vera orðinn það upptekinn af sóknarbörnum mínum að það var beinlínis farið að ógna hjónabandi mínu,“ rifjar klerkur upp. „Makinn er auðvitað manneskja eins og aðrar manneskjur og þær stundir koma að erfitt verður að finna tíma fyrir makann. Sjáðu nú bara til dæmis í dag [á föstudaginn]. Hér var jarðarför sem krefst mikillar undirbúningsvinnu en um leið krefst hún líka nokkurrar vinnu eftir á. Á morgun er svo samískt brúðkaup hérna úti í Kjøllefjord þar sem annar makinn er norskur og ég fer og sinni því,“ segir séra Sandnes og sannast þar enn og aftur hve lítill heimurinn í raun er þar sem mbl.is bauð hér upp á viðtal í gær við Sigurð Hjaltested og fjölskyldu og stóð Magnús, sonur Sigurðar, í eldhúsi í Kjøllefjord við að töfra fram hreindýr og annað ljúfmeti ofan í 250 gesti téðs brúðkaups og það í tvo daga samfleytt því Samar ríða ekki við einteyming þegar kemur að slíkum athöfnum.

Hann þarf þó vonandi ekki að tala samísku í athöfninni eins og biskupinn gamli, Norderval, kunni? „Nei nei, ég slepp nú við það, kann reyndar eitt á samísku sem er „ipmil rási“ [með fyrirvara um stafsetningu], það þýðir guðs friður,“ segir Sandnes og hlær innilega.

Senn líður að lokum þessa skemmtilega spjalls en varla er hægt að sleppa kirkjunnar manni án þess að spyrja um helstu áskoranir norskra presta á þessum síðustu. Sandnes hugsar sig ekki um í þeim efnum og kveður það áhyggjuefni hve illa sóknarbörnin ræki tíðir.

„Það er kirkjusóknin,“ segir hann alvarlegur, „fólk upplifir ekki kirkjuna sem nægilega mikilvæga stofnun til að sækja guðsþjónustu. Þetta er erfitt og ekki síður samband kirkjunnar við börn og unglinga og einnig ungar fjölskyldur. Þarna verðum við að bæta okkur. Kristindómurinn á orðið í harðri samkeppni við íþróttir og aðra tómstundaiðkun sem er orðið svo mikið framboð af. Framtíð norsku kirkjunnar er hreinlega ógnað,“ segir séra Sandnes, talar hægt og leggur mikla áherslu á orð sín.

Norska kirkjan ekki lengur ríkiskirkja

Hann segir samkeppni við fríkirkjurnar einnig harða. Þær séu einfaldlega betri á því sviði að ná til sóknarbarnanna og fá þau til kirkju. Nú sé norska kirkjan ekki lengur opinber ríkiskirkja og sú breyting, sem norska Stórþingið gerði með lögum árið 2012, hafi veikt stöðu kirkjunnar umtalsvert. „Fríkirkjurnar eru líka oftar með mun betra húsnæði og þær ná til sín fólki. Tengsl norsku kirkjunnar við fólkið voru mun sterkari áður fyrr,“ segir prestur og minnist sinna fyrstu ára í embætti.

En hvað tekur þá við hjá séra Sandnes þegar afleysingartíma hans í Gamvik-sókn lýkur í vikunni? Svarið er því miður ekkert fagnaðarerindi: „Nú fer ég heim að annast konuna mína, hún er með alvarlegt krabbamein sem hefur færst til verri vegar þann tíma sem ég hef dvalið hér,“ segir hann. Ég verð hérna út næstu viku og svo þarf ég að takast á við næsta verkefni.“

Mun hann þá sakna Mehamn (og Gamvik) við brottför? „Já, það mun ég gera. Náttúran hér er dásamleg og fólkið hluti af hjarta mínu. Ég þyrfti þá að læra íslensku líklega ef ég kæmi hingað aftur,“ segir prestur hlæjandi og vísar til þess fjölda íslenskra sjómanna og fjölskyldna þeirra sem nú búa í sveitarfélaginu og hafa þar reynst hrein lyftistöng svo sem kemur fram í næsta viðtali, við Trond Einar Olaussen, bæjarstjóra í Gamvik.

Heyrt um áhuga Íslendinga á spíritisma

Hér verða vatnaskil í viðtalinu þegar klerkur snýr hlutverkum óvænt og tekur að rekja garnirnar úr blaðamanni. Hann hefur heyrt og lesið um áhuga Íslendinga á spíritisma, miðilsfræðum og handanlífi og vill vita hvort fótur sé fyrir.

Sálusorgarinn kemur ekki alveg að tómum kofunum enda var Hafsteinn heitinn Björnsson miðill kvæntur frænku blaðamanns og afi hans stjórnarmaður í Sálarrannsóknarfélaginu. Er því þó komið á framfæri við klerk að þessir huldu dómar hafi mest átt möndul síns auðnuhjóls á öldinni sem leið og fyrr. „Og telur fólk sig hafa séð eitthvað á þessum miðilsfundum?“ spyr prestur. „Séð og séð, jú jú, það hefur víst komið fyrir að því er einhverjir telja,“ segir blaðamaður varfærnislega, lítt sólginn í að stofna til deilu fjórða valdsins og almættisins.

Yfirheyrslunni lýkur þó á góðum nótum enda næsti viðmælandi, bæjarstjórinn, handan hornsins. Séra Gabriel Are Sandnes, þessi heillandi aldni guðsmaður, fylgir blaðamanni út og kveður með einu samískunni sem honum er töm: „Ipmil rási“ eða guðs friður.

Það er hressandi að koma út í sólskin og sjö stiga hita í Mehamn, þessu heillandi sjávarþorpi við Barentshafið sem þó fóstrar svo djúpan harm þetta vorið. Kannski er þetta bara nýi trúarhitinn í Noregi á öld lítillar kirkjusóknar, sjö gráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka