Vandinn hjá SAS var tæknilegur

Flugvélar frá SAS flugu ekki á milli Osló og Stafangurs …
Flugvélar frá SAS flugu ekki á milli Osló og Stafangurs í dag, frekar en til Íslands. Tæknilegur vandi mun hafa legið að baki. AFP

„Í morgun þurftum við að ráðast í tvær aflýsingar á flugferðum. Önnur var frá Kaupmannahöfn og hin frá Osló,“ segir Mariam Skovfoged, blaðafulltrúi flugfélagsins SAS í Danmörku. Þetta þýddi að frá bæjardyrum Keflavíkurflugvallar var fjórum flugferðum aflýst, sem sé hvoru fluginu til og frá Keflavík.

Mariam Skovfoged, sem er yfir fjölmiðladeildinni hjá SAS í Danmörku, …
Mariam Skovfoged, sem er yfir fjölmiðladeildinni hjá SAS í Danmörku, ræddi við mbl.is. Flugfélagið er samskandinavískt, danskt, norskt, sænskt. Ljósmynd/SAS

Að sögn Skovfoged var þetta gert vegna tæknilegs vanda. Hún getur að svo stöddu ekki greint frá því nánar í hverju sá vandi fólst en alltént leiddi hann til þess að ekki var flogið þennan morgun.

Sagt var frá því á mbl.is í morgun að óánægju hefði gætt á flugvellinum í morgun, þegar farþegar fréttu það á vellinum að ekki yrði flogið. Fyrir hönd SAS biðst Skovfoged afsökunar á óþægindunum.

„Þegar við aflýsum flugferðum reynum við öllu jöfnu að endurbóka ferðir fyrir fólk eða að finna flöt á því að það komist leiðar sinnar,“ segir hún.

Þá reyni flugfélagið að koma því á framfæri við viðskiptavini sína í tæka tíð að fluginu verði aflýst, en það tekst ekki alltaf, og tókst ekki í dag og „okkur þykir það leitt,“ segir Skovfoged.

Tæknilegi vandinn sem upp kom hafði komið of seint í ljós til þess að slíku yrði komið við.

SAS virðist hafa átt í nokkrum vandræðum í dag en eftir því sem mbl.is kemst næst var flugferðum á milli Oslóar og Stafangurs í Noregi einnig aflýst í dag. Að sögn Skovfoged er ekki gert ráð fyrir að frekari flugferðum á vegum SAS til og frá Íslandi verði frestað en hún slær því ekki á fast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert