„Í morgun þurftum við að ráðast í tvær aflýsingar á flugferðum. Önnur var frá Kaupmannahöfn og hin frá Osló,“ segir Mariam Skovfoged, blaðafulltrúi flugfélagsins SAS í Danmörku. Þetta þýddi að frá bæjardyrum Keflavíkurflugvallar var fjórum flugferðum aflýst, sem sé hvoru fluginu til og frá Keflavík.
Að sögn Skovfoged var þetta gert vegna tæknilegs vanda. Hún getur að svo stöddu ekki greint frá því nánar í hverju sá vandi fólst en alltént leiddi hann til þess að ekki var flogið þennan morgun.
Sagt var frá því á mbl.is í morgun að óánægju hefði gætt á flugvellinum í morgun, þegar farþegar fréttu það á vellinum að ekki yrði flogið. Fyrir hönd SAS biðst Skovfoged afsökunar á óþægindunum.
„Þegar við aflýsum flugferðum reynum við öllu jöfnu að endurbóka ferðir fyrir fólk eða að finna flöt á því að það komist leiðar sinnar,“ segir hún.
Þá reyni flugfélagið að koma því á framfæri við viðskiptavini sína í tæka tíð að fluginu verði aflýst, en það tekst ekki alltaf, og tókst ekki í dag og „okkur þykir það leitt,“ segir Skovfoged.
Tæknilegi vandinn sem upp kom hafði komið of seint í ljós til þess að slíku yrði komið við.
SAS virðist hafa átt í nokkrum vandræðum í dag en eftir því sem mbl.is kemst næst var flugferðum á milli Oslóar og Stafangurs í Noregi einnig aflýst í dag. Að sögn Skovfoged er ekki gert ráð fyrir að frekari flugferðum á vegum SAS til og frá Íslandi verði frestað en hún slær því ekki á fast.