Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, hefur sent Lögmannafélagi Íslands bréf þar sem hann óskar þess að nafn hans verði tekið af skrá yfir heiðursfélaga.
„Ég get hreinlega ekki hugsað mér að vera skrautpinni í félagi sem brýtur með þessum hætti rétt á mönnum og forherðist síðan í þeirri viðleitni,“ skrifar Jón Steinar á vefsíðu lögmannsstofu sinnar JGS lögmenn.
Tilefni skrifanna er að Hæstiréttur hefur fallist á að veita Lögmannafélagi Íslands leyfi til að áfrýja til réttarins dómi Landsréttar frá því í byrjun apríl í máli hans gegn félaginu.
Í dómnum féllst Landsréttur á kröfu hans gagnvart Lögmannafélagi Íslands um að áminning á hendur honum yrði felld úr gildi, en áminningin var veitt vegna tölvupósta sem Jón Steinar sendi Ingimundi Einarssyni, þáverandi dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmannafélagið var dæmt til að greiða Jóni Steinari málskostnað á báðum dómsstigum.
„Svo stendur á um mig að ég átti sæti í stjórn LMFÍ árin 1981-86, þar af sem formaður þrjú síðustu árin. Síðan var ég gerður að heiðursfélaga á árinu 2011. Í skjali sem hangið hefur í ramma uppi á vegg á skrifstofu minni segir svo um „sérstaka verðleika“ mína: „Starfaði sem lögmaður við góðan orðstír í 29 ár og sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið.“ Ég hef nú tekið skjalið niður af veggnum,“ skrifar Jón Steinar á vefsíðunni.
„LMFÍ er skyldufélag. Í því felst að starfandi lögmönnum er skylt að eiga aðild að félaginu. Ég get því ekki sagt mig úr því meðan ég gegni ennþá störfum sem lögmaður. Það myndi ég gera ef ég gæti. Ég þarf hins vegar varla að una því að teljast til heiðursfélaga í félagi sem brýtur svo gróflega gegn réttindum mínum eins og félagið hefur gert og leitar við það atbeina stofnunar sem allir sem fylgjast með ættu að vita að ber til mín haturshug.“