Fátækara samfélag án Íslendinga

Trond Einar Olaussen, bæjarstjóri í Gamvik, fyrir framan Ráðhúsið í …
Trond Einar Olaussen, bæjarstjóri í Gamvik, fyrir framan Ráðhúsið í Mehamn, en Mehamn telst stjórnsýslusetur sveitarfélagsins og auk þess fjölmennasta þéttbýlið með sína 800 íbúa. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég kem bara og næ í þig!“ sagði bæjarstjórinn í Gamvik, Trond Einar Olaussen, í símann og sagðist hringja þegar hann yrði fyrir utan. Sparaði hann þar með blaðamanni þau spor að fara gangandi um ókunnugt bæjarfélag lengst norðan heimskautsbaugs í leit að bæjarstjóra.

Ekki leið á löngu uns Olaussen, sem situr fyrir Verkamannaflokkinn, birtist á hlaðinu og ók þaðan rakleiðis í Ráðhúsið í Mehamn sem reynist vera fyrrverandi grunnskóli. Þar opnar hann skrifstofu sína og býður til sætis. Spurt er sígildra grunnupplýsinga.

„Ég er héðan,“ segir bæjarstjórinn og hefði líklega ekki orðið kápan úr því klæðinu að ljúga miklu um upprunann þar sem sterkur Finnmerkurframburðurinn segir allt sem segja þarf, þessi sérstaki talandi sem er svo einkennandi fyrir nyrstu byggðir landsins og gerir mörk milli ólíkra sérhljóða gjarnan ógreinileg í óinnvígðum eyrum auk þess sem hjá sumum mælendum verður n mjög raddað og framgómmælt.

Kynflokkaði loðnu 12 ára

Olaussen reynist vera fæddur og uppalinn í Mehamn og rifjar upp æskuár sín þar sem sjósóknin var greinilega rauði þráðurinn. „Maður ólst upp í flæðarmálinu, faðir minn var sjómaður og við fórum í róðra með honum. Fiskurinn var allt í öllu og verkkunnáttan fluttist milli kynslóða. Á veturna var gefið tveggja til þriggja vikna frí í skólanum svo við gætum farið og hjálpað til í fiskvinnslunni, allt samfélagið var í því,“ segir Olaussen og rifjar upp þegar hann stóð dægrin löng við að kynflokka loðnu tólf ára gamall. „Núna er þetta auðvitað allt gert í vélum,“ segir hann og hlær.

Á skrifstofu bæjarstjóra. Olaussen ræddi meðal annars um þá lyftistöng …
Á skrifstofu bæjarstjóra. Olaussen ræddi meðal annars um þá lyftistöng sem íslenskir sjómenn og fjölskyldur þeirra hafi verið hinu litla sjávarsamfélagi í Gamvik og Mehamn. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Olaussen gerði þó ekki gullið úr greipum ægis að sínu lífsviðurværi heldur sneri sér að heilbrigðiskerfinu, bæjarstjórinn er menntaður geðhjúkrunarfræðingur. „Ég starfaði við það í mörg ár, fyrst í Kirkenes en ég lærði í Hammerfest. Áður en ég varð bæjarstjóri var ég svo búinn að starfa hjá sveitarfélaginu í fjögur ár, mest tengt heilbrigðismálum en líka allt mögulegt annað,“ segir hann frá.

Bæjarstjórinn lét nokkuð í sér heyra í maí í tengslum við skipan löggæslumála á svæðinu í kjölfar harmleiksins sem hér varð og ræddi þá einnig umtalsverða aukningu í umferð og neyslu fíkniefna í þessu um það bil 1.150 manna byggðarlagi sem Gamvik og Mehamn til samans eru. Hvað liggur þar að baki?

„Ég ætla ekki að segja að það tengist aðfluttu vinnuafli, mun frekar að þetta sé til komið vegna nýlegrar breytingar á skipan löggæslumála, hinni svokölluðu nálægðarlögregluuppstokkun [n. nærpolitireformen] sem í tilfelli okkar hér gerði ekki annað en að færa lögregluna fjær okkur. Þar held ég að skýringin liggi,“ segir Olaussen.

Fleiri sögur um fíkniefnaneyslu

Hann segist nú heyra mun meira um það en áður frá íbúum bæjarins að þeir verði í auknum mæli varir við sölu og neyslu fíkniefna. „Eins hefur ofbeldi orðið hér meira áberandi sem mætti kannski skýra að hluta með því að íbúarnir koma orðið frá ólíkum menningarsvæðum, þar af leiðandi þekkja þeir ólíkar leiðir þegar kemur að átakastjórnun [n. konflikthåndtering]. Nú er ég ekki að halda því fram að okkar tök á slíku séu þau einu réttu, en þau eru bara öðruvísi,“ segir bæjarstjóri.

Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Hann telur lögregluþjóna tapa mikilli yfirsýn og tengingu við bæjarfélagið þegar þeir eru ekki sjálfir búsettir á staðnum eins og áður hafi verið. Þeir lögregluþjónar sem sinni löggæslu í Gamvik (og Mehamn sem heyrir undir Gamvik) starfi hjá sveitarfélaginu Lebesby, en þaðan komu lögreglumenn einmitt akandi aðfaranótt 27. apríl, frá Kjøllefjord, og voru 40 mínútur á leiðinni. „Þetta ástand er afleiðing pólitísks þrætueplis milli þessara nágrannasveitarfélaga um að ná til sín lögregluembættinu og þar bar Lebesby sigurorð úr býtum.“

Þetta telur Olaussen öfugsnúið. Í Lebesby séu hvorki barir né skemmtistaðir og þangað flytjist mun færri í leit að vinnu. Reyndar er skiptingunni þannig háttað að áfengisverslun svæðisins er í Kjøllefjord en í Mehamn eru alls þrjú vínveitingahús að hótelinu meðtöldu, eitt reyndar svo smátt að minnir á gamla Skipperinn sem var og hét við Tryggvagötu í Reykjavík á öldinni sem leið.

„Við erum algjörlega háð Íslendingum“

„Ég verð þó að segja þér eitt og það er að við erum ákaflega ánægð með það vinnandi fólk sem hingað hefur flutt frá Íslandi,“ segir bæjarstjórinn. „Við erum algjörlega háð Íslendingum hér, þið hafið komið hingað og sýnt okkur hvílíkir dugnaðarforkar þið eruð og þennan víkingaanda sem einkennir ykkur. Samfélag okkar væri fátækara án þessara starfskrafta. Við leggjum traust okkar töluvert í hendur innflytjenda sem blása nýju lífi í atvinnulíf okkar hér í Mehamn og Gamvik.

Bæjarstjórinn bauð í bíltúr eftir viðtalið. Horft út á Barentshafið …
Bæjarstjórinn bauð í bíltúr eftir viðtalið. Horft út á Barentshafið frá einum af nyrstu landföstu punktum Evrópu. Sá sem nyrst skagar er nokkrum kílómetrum vestar. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Ég er alls ekki að segja að Íslendingarnir standi á bak við neitt í fíkniefnum hér. Þar höfum við nú bara marga Norðmenn og einnig innflytjendur frá Eystrasaltslöndunum. Við sjáum það að margir koma hingað frá Íslandi til að skapa sér nýtt líf hér, kaupa íbúðir, koma með börnin sín og verða hluti af okkar samfélagi og yfir því gleðjumst við af öllu hjarta.“

Olaussen segir það gleðiefni að hafa fjölda íslenskra sjómanna á svæðinu sem geri út eigin báta, veiði sinn kvóta og taki þannig þátt í atvinnulífi þessa smáa samfélags. „Að samfélag byggist upp á heilbrigðan hátt hjálpar okkur auðvitað í þeirri baráttu að draga úr fíkniefnaneyslu og ofbeldi og ég er þess vegna mjög ánægður með að fólk kjósi að flytja hingað til að starfa hér og allra ánægjulegast er þegar fjölskyldur flytja hingað með það fyrir augum að eiga sitt líf hér,“ segir Trond Einar Olaussen að lokum.

Hann býður þessu næst í stuttan bíltúr og ekur út á svæði þaðan sem horfa má út yfir Barentshafið svo langt sem augað eygir í aftanskininu og sjá stórbrotið berg ganga í sjó fram. Höfnin er næsti viðkomustaður með gargi sjófugla og fiskibátum sem bundnir eru við bryggju í löngum röðum. Ekki er örgrannt um hver lífæð þessa litla samfélags nyrst í Noregi er.

Lífsviðurværið við Barentshafið. Kóngakrabbinn er helsta gullið úr greipum ægis …
Lífsviðurværið við Barentshafið. Kóngakrabbinn er helsta gullið úr greipum ægis hér um slóðir eins og Sigurður Hjaltested sjómaður fór ítarlega yfir í viðtali á sunnudaginn. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert