Mun meira kjöt hefur selst í sumar en í fyrrasumar hjá Kjötsmiðjunni. Mest af kjötinu er íslenskt lambakjöt og söluaukning er einnig til staðar á nautakjöti, sem er innflutt að mestu. Þetta segir Sigurður V. Gunnarsson, forstjóri Kjötsmiðjunnar.
„Síðasta sumar var mjög lélegt í sölu á grillkjöti og það er náttúrulega bara vegna veðurs. En við erum búin að selja mjög vel það sem af er þessu sumri,“ segir Sigurður í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að lambakjötið seljist yfirleitt betur á sumrin og nautakjötið sé selt allt árið um kring.
Nautakjötið hjá Kjötsmiðjunni er að mestu leyti innflutt og kemur það aðallega frá Danmörku og Þýskalandi. Áður var meira innflutt frá Bretlandi en dregið hefur úr innflutningi breska kjötsins, að sögn Sigurðar.