„Þetta er ofsalega sorglegt,“ segir landvörður í samtali við mbl.is. Umhverfisstofnun hefur tilkynnt utanvegaakstur á jarðhitasvæðinu við Sogin í vesturjaðri Reykjanesfólkvangs til lögreglu. Landvörður kom auga á förin 9. júní og kæra var send fimm dögum síðar.
Fyrst var greint frá málinu á vef RÚV.
Ekki er vitað hversu gömul förin eru en landvörður telur að þau hafi verið frekar nýleg þegar fyrst var komið auga á þau 9. júní.
Förin eru eftir þrjú mótorhjól og eitt fjórhjól. Förin eftir mótorhjólin eru eldri og því ekki hægt að útiloka að um sitt hvorn daginn sé að ræða.
Svæðið er þakið hveraleir en ekið var í blautum lækjarfarvegi og upp hlíðar með mosa. Hægt verður að laga eitthvað með hrífu og segir landvörður að auðvitað verði að laga þetta, annars muni fleiri feta í förin.