SAS mun fljúga í dag frá Kaupmannahöfn og Ósló til Keflavíkurflugvallar samkvæmt áætlun. Afgreiðslutímar hafa verið staðfestir, samkvæmt upplýsingum Isavia.
Í gærmorgun var flugi SAS frá Kaupmannahöfn og Ósló aflýst og þar með flugi frá Keflavík til borganna. Að sögn Mariam Skovfoged, blaðafulltrúa flugfélagsins í Danmörku, var fluginu aflýst vegna tæknilegs vanda. Hún gat í gær ekki greint nánar frá í hverju sá vandi fólst.
Sagt var frá því á mbl.is í gærmorgun að óánægju hafi gætt á flugvellinum þegar farþegar sem þangað voru komnir fréttu að ekki yrði flogið.
Þorbjörg Gísladóttir, landsliðsþjálfari unglinga í áhaldafimleikum, var mætt upp á Keflavíkurflugvöll þegar hún fékk þær fréttir að flugi SAS til Kaupmannahafnar hefði verið frestað. „Ég held bara að allir sem áttu að fara í þetta flug hafi verið mættir, þetta var algert kaos,“ segir hún. „Fólk virtist ekki vera búið að fá þessar upplýsingar heldur frétti þetta bara á vellinum.“