Segir stjórn LV starfa samkvæmt lögum

Ína Björk Jannesdóttir (fremst til vinstri) segir stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna …
Ína Björk Jannesdóttir (fremst til vinstri) segir stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa starfað samkvæmt lögum og hefur hún áhyggjur af því að reynst getur löglegt að vega að sjálfstæði stjórna. Ljósmynd/Lífeyrissjóður verzlunarmanna

„Eitt að því sem þessi stjórn hefur lagt áherslu á er að auka gagnsæi í öllum sínum störfum, svo sem við í skipun í stjórnir hlutafélaga. Hún hefur einnig innleitt kröfu um siðferðisleg viðmið við allar sínar fjárfestingar,“ segir Ína Björk Hannesdóttir, stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV), í samtali við mbl.is.

Ína Björk er ein þeirra fjögurra stjórnarmanna sjóðsins sem fulltrúaráð VR hefur ákveðið að víkja úr starfi vegna ákvörðun stjórnar 24. maí um að hækka vexti verðtryggðar sjóðsfélagalána úr 2,06% í 2,26%.

„Það er leiðinlegt hvernig þetta mál hefur þróast,“ segir stjórnarmaðurinn og kveðst hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin ef löglegt reynist að vega að óhæði stjórnarmanna með þeim hætti sem VR gerir.

„Það er stjórnar að sinna sinni lagalegu skyldu með hagsmuni allra sjóðsfélaga – sem eru 170 þúsund – að leiðarljósi og það er okkar skylda að alltaf ávaxta fé sjóðsfélaga á sem bestan máta með tilliti til áhættu. Við eigum líka að vera óháð í okkar störfum og starfa innan ákveðins lagaramma. Þetta eru aðalatriðin í okkar starfi,“ segir Ína Björk.

Hún segir kjörtímabil stjórnarinnar hafi runnið út 1. mars, en að þeim hafi verið tilkynnt af VR að stjórnin myndi sitja fram að næsta aðalfundi þar sem væri verið að klára vinnu við að breyta samþykktum sjóðsins í samræmi við samkomulag VR og Samtaka atvinnulífsins.

„Núna eru samþykktir lífeyrissjóðsins í ráðuneytinu og bíða staðfestingar. Þegar þar er komið er spurning hvort yrði haldinn auka aðalfundur þar sem kjörin er ný stjórn eða hvort það verður gert á næsta aðalfundi í mars.“

Enn lægstu vextir á markaði

Ína Björk segir stjórn sjóðsins ekki hafa haft heimild til þess að breyta ekki vaxtaviðmiði þeirra lána sem vaxtahækkun sjóðsins tekur til. „Við höfum enga heimild til að niðurgreiða vexti til lítils hluta sjóðsfélaga eða hafa vexti lægri en það sem markaðsvextir eru, eða það sem við getum fengið fyrir sambærilega fjárfestingu á markaði.“

„Þetta eru ennþá hagstæðustu breytilegu vextirnir á markaðnum ef lánaskilmálar okkar eru skoðaðir og bornir saman við aðra sjóði,“ bætir hún við.

Hún segir á sama tíma og stjórn sjóðsins ákvað að hækka vexti á umræddum lánum voru vextir lækkaðir um 0,2 prósentustig á verðtryggðum lánum með fasta vexti. „Eru þeir nú þeir lægstu á markaðnum.“ Ína Björk bendir einnig á að næsti vaxtaákvörðunardagur er 15. júlí og má vænta þess að vextir á óverðtryggðum lánum lífeyrissjóðsins lækki allt að 1 prósentustig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert