Baldur Arnarson
Sérfræðingar hjá Landsbankanum og Íslandsbanka telja að vegna breyttrar stöðu efnahagsmála þurfi mögulega að endurmeta væntingar um söluverð lúxusíbúða í miðborg Reykjavíkur. Vísbendingar séu um að markaðurinn sé mettaður.
Þá telur Magnús Árni Skúlason, sérfræðingur hjá Reykjavík Economics, líkur á stórauknu framboði notaðra íbúða í miðborginni vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Áhrifin af því séu mögulega mjög vanmetin.
Fjárfest hefur verið fyrir tugi milljarða í hundruðum nýrra íbúða í miðborginni síðustu misseri.
Horft er til vaxtaákvörðunar hjá Seðlabanka Íslands á morgun.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja, þunga skattbyrði þrengja að svigrúmi banka til að lækka vexti af útlánum. Aukagjöld á banka, á borð við bankaskatt og fjársýsluskatt, verði ekki greidd af „neinum öðrum en viðskiptavinum bankanna“. „Þessir skattar voru samtals rúmir 10 milljarðar 2018.“