Skortur á lambahryggjum er staðreynd, ef marka má Samtök verslunar og þjónustu.
Samtökin skora á ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara að leggja mat á framboðið á lambahryggjum hér á landi, með það fyrir augum að hugsanlega verði úthlutað tollkvótum, sem myndu þá lækka tollana á innflutningnum.
Útflutningurinn á lambahryggjum er sagður hafa verið það mikill undanfarið að stórar innlendar afurðastöðvar geti ekki afhent matvöruverslunum lambahryggi fyrr en næsta haust, þar sem birgðir séu á þrotum.
Og „til að bregðast við þessari stöðu hafa matvöruverslanir þegar hafið eða eru með í undirbúningi að flytja inn erlenda lambahryggi í þeim tilgangi að anna eftirspurn íslenskra neytenda og erlendra ferðamanna á söluhæsta tíma ársins,“ segir í tilkynningu.
Því kynni að þurfa að gefa út tollkvóta, þar sem „að óbreyttu munu tollar á þessar neysluvörur nema háum fjárhæðum og þær munu óhjákvæmilega endurspeglast í útsöluverði til neytanda,“ segir jafnframt.
Samtökin vilja að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara geri úttekt á framboðinu og skoði hvort gefnir verði út tollkvótar.
„Í ljósi umræðna um nauðsyn þess að tryggja fæðuöryggi á Íslandi yrði það verulega ankannaleg niðurstaða ef afurðastöðvar og dreifingaraðilar fá einfaldlega að komast upp með að flytja drjúgan hluta kjötframleiðslu úr landi og stuðla á sama tíma að verðhækkunum til neytenda á Íslandi. Eðlilegt er að spurt sé hvort það sé hluti af landbúnaðarstefnunni að neytendur niðurgreiði útrás íslensks landbúnaðar með hærra kaupverði lambahryggja,“ segir enn fremur.