„Fyrir mér er málinu lokið. Ég hélt að Þórhildur Sunna myndi hafa manndóm í sér að biðja mig afsökunar á því að hafa ásakað mig um þjófnað en þau ætla greinilega að halda áfram,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Forsætisnefnd Alþingis hefur fallist á niðurstöður siðanefndar þingsins þess efnis að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi brotið siðareglur fyrir alþingismenn með ummælum sínum um Ásmund.
Siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ummæli hennar um Ásmund, einkum ummæli um að rökstuddur grunur væri uppi um refsiverða háttsemi hans, bryti gegn siðareglunum.
Píratar eru ekki ánægðir með niðurstöðuna. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, skilaði séráliti í forsætisnefnd en hann vildi að málinu yrði vísað aftur til siðanefndar þar sem sannleiksgildi ummæla Þórhildar Sunnu yrði rannsakað. Jón Þór sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að sannleikurinn væri greinilega auka atriði í málinu.
„Ég lít þannig á að skrifstofa Alþingis hafi sagt allt sem þarf að segja í þessu máli fyrir mig,“ segir Ásmundur. Hann segir að komið hafi fram að ekkert hafi verið athugavert við þau gögn sem hann hafi skilað til þingsins. „Mér finnst að með því að halda áfram með þetta mál séu þau fyrst og fremst að ráðast gegn starfsmönnum þingsins.“
En var ekki einmitt eitthvað athugavert við þetta fyrst sem þú síðan leiðréttir?
„Það voru tvær færslur sem voru gerðar athugasemdir við þegar ég var að vinna fyrir ÍNN. Það var ekkert öðruvísi en þannig að menn lenda reglulega í því í lífinu að fyrirtæki skili reikningi, það eru gerðar athugasemdir og það síðan lagfært. Það var ekkert brot og þetta hefur verið útskýrt,“ segir Ásmundur og bætir við að hann hafi endurgreitt þann kostnað.
Spurður hvort hann sé smeykur við frekari aðgerðir Pírata vegna málsins er Ásmundur fljótur til svars: „Af hverju ætti ég að vera það? Ég lít á það þannig að þá séu þau að gera ótrúverðugt það sem starfsmenn þingsins segja. Gögnin liggja þar og margoft hefur verið líst yfir að ekkert sé að.“
Jón Þór sagði í áðurnefndu samtali við mbl.is að ferlið þar sem siðanefnd gefur sitt álit og forsætisnefnd festi það sé handónýtt. „Það er merkilegt að þeir stjórnmálamenn sem kölluðu eftir því að sett yrði á stofn sérstök siðanefnd kvarti og segi að allt sé ómögulegt þegar nefndin vinnur ekki eins og þau vilja. Það er mjög sérstakt. Ég velti fyrir mér ef niðurstaðan hefði verið öfug þá hefðu þau klárlega sagt að nefndin virkaði,“ segir Ásmundur.