Mjaldrarnir Litla-Hvít og Litla-Grá nærðust vel um helgina og hafa það gott í umönnunarlauginni í Vestmannaeyjum. Nú búa þjálfarar mjaldranna þá undir nýjar aðstæður í Klettsvík í Vestmannaeyjum, þar sem sjórinn er kaldari en þeir hafa vanist.
Andy Bool, forstjóri Sea Life Trust, segir að umönnunarteymi mjaldranna sé ánægt með árangurinn og að hvalirnir hafi komið sér vel fyrir í tímabundnu heimkynnum sínum, í sóttkvínni.
„Eftir ferðalag mjaldranna heimsóttu flugmenn Cargolux þá í sóttkvína til að ganga úr skugga um að „VIP“-farþegar þeirra væru við góða heilsu. Án þeirra hefði ferðin ekki gengið upp,“ sagði Bool.
Mjaldrarnir hafa dvalið í sóttkví í sérsmíðaðri laug síðan þeir komu til Vestmannaeyja á miðvikudag. Sennilegt er að þeim verði sleppt í Klettsvík í lok júlí eða í byrjun ágúst. Bool segir að tímasetningin velti á því hvernig mjöldrunum gangi að aðlagast nýja svæðinu og heilsu þeirra.