Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir engan skulda Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins afsökunarbeiðni.
Þetta sagði Björn Leví á Facebook-síðu sinni eftir að Ásmundur kvaðst í samtali við mbl.is hafa haldið að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, myndi biðja hann afsökunar eftir að forsætisnefnd Alþingis féllst á niðurstöðu siðanefndar þingsins um að Þórhildur Sunna hafi brotið siðareglur með ummælum sínum um Ásmund.
„Nei Ásmundur. Þegar þú misnotar stöðu þína sem þingmaður til þess að fá endurgreiðslur fyrir innanflokksprófkjör og í kosningabaráttu sem frambjóðandi - eins og þú viðurkenndir í Kastljósi - þá skuldar þér enginn afsökunarbeiðni fyrir að segja að nákvæmlega það sé rökstuddur grunur um að það þurfi að rannsaka hvort það sé brot á lögum og reglum um endurgreiðslur starfskostnaðar,“ skrifar Björn Leví á Facebook.