Segja tækifærin vera til framtíðar

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag. Frá vinstri: Elín Árnadóttir frá …
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag. Frá vinstri: Elín Árnadóttir frá Isavia, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, og Friðjón Einarsson frá Reykjanesbæ. mbl.is/Arnþór

Nýr kafli hófst í dag í þróun skipulags á svæðinu í kringum Keflavíkurflugvöll þegar viljayfirlýsing stjórnvalda og einkahlutafélagsins Kadeco var undirrituð. Hefst nú vinna að skipulagningu nýs samfélags á svæðinu sem byggt verður með hugmyndafræðina „Aerotropolis“ að leiðarljósi og er meginmarkmiðið að skapa verðmæti og atvinnu fyrir svæðið í heild sinni, meðal annars með erlendri fjárfestingu. 

Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. stendur að yfirlýsingunni ásamt fjármálaráðuneytinu, Isavia, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Svæðið sem félagið hefur til umsýslu er eitt verðmætasta landsvæði í eigu ríkissjóðs eftir því sem fram kemur í tilkynningu Kadeco, en það er um 60 ferkílómetrar að stærð. 

Marta Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Kadeco, segir að um ákaflega spennandi og hvetjandi tækifæri sé að ræða og er bjartsýn á sköpun og uppbyggingu verðmæta á svæðinu til lengri tíma litið. 

„Viljayfirlýsingin snýst um að skipuleggja, þróa og markaðssetja land í nágrenni Keflavíkurflugvallar sem var áður í umsjón varnarliðsins. Árið 2006 var þetta land svo flutt yfir til Kadeco. Síðan þá hefur Kadeco haft tvíþættan tilgang. Annars vegar að selja íbúðirnar sem eru hérna á Ásbrú og því er nú lokið, og hins vegar sá kafli sem við erum að hefja nú í sögu félagsins, sem er þetta landþróunarverkefni sem er þá á landi ríkissjóðs við Keflavíkurflugvöll. Við ætlum að þróa einskonar viðskiptagarð, búa til verðmæti úr þessu landi með því að skipuleggja það og draga að fjárfestingu inn á svæðið, bæði innlenda og erlenda,“ segir Marta. 

Marta Jónsdóttir.
Marta Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Byggir á erlendri hugmyndafræði

„Verkefnið byggir á hugmyndafræði sem kallast Aerotropolis sem byggir á kenningum dr. John Kasarda. Kadeco hefur nánast frá stofnun unnið að þessari hugmyndafræði og stefnt að því að fara í þetta verkefni eftir að eignarsölu lyki.“ 

Aerotropolis hugmyndafræðin byggir á því að skapa megi mikil verðmæti úr landi við flugvöll, svo sem gert er víða erlendis, þar sem alþjóðleg fyrirtæki kjósa að staðsetja sig við vel tengda flugvelli, bæði vegna möguleika til vörudreifingar en jafnframt til að nýta flugteningar fyrir stjórnendur og starfsfólk. 

Marta segir mikilvægt að taka eitt skref í einu í þróun verkefnisins og að undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag hafi verið mikilvægt fyrsta skref. 

„Þetta tekur allt sinn tíma. Það þarf að greina ýmislegt eins og samkeppnisstöðu flugvallarins og kosti og galla svæðisins, hvernig starfsemi við viljum fá inn og þar fram eftir götunum. En Kadeco hefur unnið eftir Aerotropolis í rúmlega tíu ár og hluti af þeirri starfsemi sem við höfum fengið inn á okkar svæði er í takt við þetta eins og til dæmis gagnaverin sem við höfum á Ásbrú sem eru mjög stór starfsemi,“ segir Marta. 

„Það er verið að horfa langt inn í framtíðina. Þetta er ekki verkefni sem verður til á einni nóttu. Það þarf að fara vel af stað og byggja þetta vel upp frá upphafi. Við erum að passa að það séu raunhæfar væntingar og að þetta sé langtímaverkefni. Þetta er náttúrulega gríðarlega stórt og tekur sinn tíma og maður má ekki rjúka af stað of hratt.“

Frá athöfninni í dag.
Frá athöfninni í dag. Ljósmynd/Aðsend

Verið að skapa vettvang fyrir verðmætaþróun

Bjarni Benediktsson fjármála og efnahagsráðherra undirritaði viljayfirlýsinguna í dag fyrir hönd ríkisins, en sem ráðherra fer hann með hlut stjórnvalda í Kadeco. 

„Þetta eru mikil tímamót. Við höfum náð saman grundvelli fyrir þessa viljayfirlýsingu og í kjölfarið verður útfærður samstarfssamningur. Ef það er eitthvað eitt sem við erum sammála um eru það tækifærin sem liggja í svæðinu til framtíðar. Það sjá allir virðið í því að skapa vettvang fyrir þróun svæðisins í heild, bæði fyrir atvinnu og íbúa, sagði Bjarni í samtali við mbl.is.

„Hugsunin með þessu er sú að til þess að hámarka virði allra sem að málinu koma fyrir samfélagið þurfi samstarf. Það þarf samstarf ríkisins sem eiganda að miklu landsvæði þarna og mikilvægum eignum, samstarf sveitarfélagana sem fara með skipulagsvaldið og nú erum við að ná þessum lykilaðilum eins og flugvallarstarfseminni að borðinu.“ 

Bjarni segir Kadeco líklega koma til með að bera kostnaðinn af verkefninu, en nú er aðeins verið að hefja skipulags- og hugmyndavinnu fyrir uppbyggingu síðar í framtíðinni. 

Á þessum tímapunkti erum við að gera ráð fyrir því að Kadeco, sem hefur haft það hlutverk að annast um og koma í verð eignum sem ríkinu féll í skaut við brotthvarf varnarliðsins, að það taki á sig kostnað við fyrstu skref. Hann getur hlaupið á tugum eða jafnvel hundruðum milljóna, en til lengri tíma sjáum við í þessu gríðarlega mikla virðisaukningu fyrir alla hlutaðeigandi, segir Bjarni. 

Við erum að hugsa um þróun svæðisins í heild með tilliti til tækifæra sem tengjast alþjóðafluginu, bæði farþega- og vöruflutningar og önnur flugsækin starfsemi. Það er mikilvægt að þegar teknar eru ákvarðanir um uppbyggingu á einum stað að heildarmyndin sé höfð til hliðsjónar.

Tilkynning fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna viljayfirlýsingarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert