Skiptir engu máli hvort þingmenn segi satt

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/​Hari

„Þing­menn verða núna hrædd­ari við að segja sann­leik­ann um mögu­lega spill­ingu. Það er niðurstaðan,“ seg­ir Jón Þór Ólafs­son, þingmaður Pírata og einn nefnd­ar­manna í for­sæt­is­nefnd Alþing­is. For­sæt­is­nefnd hef­ur fall­ist á niður­stöðu siðanefnd­ar þings­ins þess efn­is að Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir hafi brotið siðaregl­ur fyr­ir alþing­is­menn.

Niðurstaða siðanefnd­ar, sem for­sæt­is­nefnd féllst á fyr­ir helgi, snýr að um­mæl­um Þór­hild­ar Sunnu um Ásmund Friðriks­son, þing­mann Sjálf­stæðis­flokks­ins. Um­mæl­in féllu í Silfr­inu og var Þór­hild­ur Sunna þar að ræða end­ur­greiðslur sem Ásmund­ur naut frá Alþingi á grund­velli skrán­inga í akst­urs­dag­bók hans.

Seg­ir siðaregl­un­um snúið á haus

„Ég vildi vísa mál­inu aft­ur til siðanefnd­ar með kröfu um að siðanefnd­in tæki af­stöðu til sann­leiks­gild­is um­mæla Þór­hild­ar Sunnu,“ seg­ir Jón Þór. Hann seg­ir að með nú­ver­andi niður­stöðu sé það staðfest að um siðabrot sé að ræða þegar þing­menn tjái sig um mögu­lega sjálf­töku annarra þing­manna.

„Siðaregl­un­um er snúið á haus,“ seg­ir Jón Þór og bæt­ir við að regl­urn­ar hafi ekki verið sett­ar að frum­kvæði þing­manna. „Við urðum að setja siðaregl­ur vegna þess að við erum í alþjóðasam­starfi gegn spill­ingu; GRECO-sam­starf­inu. Regl­urn­ar eru sett­ar til að koma í veg fyr­ir að ráðamenn geti mis­farið með al­manna­vald og al­manna­fé. Það er til­gang­ur regln­anna,“ seg­ir Jón Þór.

Þing­menn eigi að hafa sig hæga

Hann seg­ir skila­boðin sem verið sé að senda með þess­ari niður­stöðu séu skýr. „Það er verið að segja þing­mönn­um að hafa sig hæga. Ekki eigi að benda á mögu­lega spill­ingu því þá gæti viðkom­andi lent í því að vera dæmd­ur fyr­ir að hafa brotið siðaregl­ur,“ seg­ir Jón Þór og bæt­ir við að sann­leiks­gildi virðist litlu máli skipta: „Það skipt­ir engu máli hvort þú seg­ir satt.“

Jón Þór seg­ir sam­trygg­ingu stjórn­mála­manna um sjálf­töku styrkj­ast vegna niður­stöðunn­ar og að fólk geti lesið það sem það vill lesa úr niður­stöðunni. 

„Siðanefnd gef­ur sitt álit og for­sæt­is­nefnd fest­ir það. Það verður að end­ur­skoða þetta ferli en það er handónýtt. Upp­runa­lega áttu stjórn­mála­menn ekk­ert að vera með putt­ann í þessu. Ég sagði að það kæmi ekki til greina að stjórn­mála­menn dæmdu í slík­um mál­um út af freistni­vanda, frænd­hygli og öllu því,“ seg­ir Jón Þór. Hann bend­ir á að meint brot Ásmund­ar hafi verið stöðvað áður en það var sent siðanefnd. 

„Ásmund­ur viður­kenndi samt sjálf­ur að skrif­stofa Alþing­is hafi sagt hon­um að fara á bíla­leigu­bíl eft­ir 15 þúsund kíló­metra akst­ur,“ seg­ir Jón Þór en regl­ur kváðu á um að þing­menn gætu að há­marki fengið 15 þúsund kíló­metra end­ur­greidda. Hann hafi hins veg­ar haldið áfram að keyra eig­in bíl og senda inn kröf­ur um end­ur­greiðslu fyr­ir akst­urs­kostnað upp í 48 þúsund kíló­metra.

„Það vita all­ir að hann fór ekki eft­ir regl­un­um en málið var ekki sent til siðanefnd­ar. Meiri hluti for­sæt­is­nefnd­ar að frum­kvæði Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar stöðvaði það.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka