Stjórn LV svarar FME í dag

Hús verslunarinnar.
Hús verslunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) vinnur að því að svara fyrirspurnum Fjármálaeftirlitsins (FME) varðandi útskiptingu VR á sínum fjórum stjórnarmönnum. Frestur til að svara erindinu rennur út á hádegi í dag og segir Ólafur Reimar Gunnarsson, formaður stjórnar LV, að svarið verði sent tímanlega fyrir þann tíma.

Í kjölfar þess að VR ákvað að afturkalla umboð stjórnarmanna sinna og tilnefna nýja sendi FME fyrirspurn til stjórnar sjóðsins um fyrirkomulag tilnefninga og það sem stofnunin telur íhlutun í störf stjórnar. Ólafur segir að stjórnin hafi falið lögmanni að fara yfir málið og skrifa drög að svari.

Ólafur segir að það flæki málið að ekki sé búið að staðfesta nýjar samþykktir lífeyrissjóðsins, þar sem kveðið er á um það hvernig standa skuli að tilnefningu fólks í stjórn. Nýtt fyrirkomulag var ákveðið í samningum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands en samþykktirnar taka ekki gildi fyrr en fjármálaráðuneytið hefur staðfest þær, að fenginni umsögn FME. Ólafur segir ljóst að það gerist ekki fyrr en í haust. VR hefur unnið samkvæmt þessum tillögum að samþykktum við sínar tilnefningar. FME virðist vera að skoða málið út frá gömlu samþykktunum og hvaða áhrif þær nýju kunni að hafa.

Sitja að beiðni FME

Ólafur Reimar og hinir þrír fulltrúar VR í stjórn LV ákváðu að sitja áfram til bráðabirgða þrátt fyrir ákvörðun VR. Ólafur Reimar segir að það sé gert í framhaldi af þeim skilaboðum frá FME að ef þeir segi af sér eigi varamenn að taka þeirra sæti, ekki þeir fulltrúar sem VR vill nú tilnefna í þeirra stað. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert