Til marks um að samningar standist

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/​Hari

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins (ASÍ), segir að veðjað hafi verið á að vaxtalækkanir væru í kortunum við gerð lífskjarasamninga ASÍ og SA í vor. Því sé vaxtalækkunin nú til marks um að markmið samninganna um að bæta lífskjör vinnandi fólks á breiðum grunni hafi gengið eftir.

Drífa segir að við samningagerð hafi stéttarfélögin slakað á launakröfum sínum með það fyrir augum að halda verðbólgu niðri og skapa skilyrði til vaxtalækkunar.

Frá því kjarasamningar voru undirritaðir í apríl hafa stýrivextir lækkað um 0,75 prósentustig, úr 4,5% í 3,75% og segir Drífa aðspurð að lækkunin sé nokkurn veginn í samræmi við væntingar hennar. „Bankinn hefur ákveðið að gera þetta taktfast í stað þess að lækka vexti í einhverjum holskeflum, og við getum haft skilning á því,“ segir Drífa. Hún eigi von á frekari lækkun vaxta á næstu misserum.

Ákvæði er í kjarasamningunum um að þá skuli endurskoða í september á næsta ári með möguleika á uppsögn telji aðilar samningsins, ASÍ og SA, að einhver þriggja meginforsendna samningsins hafi ekki verið uppfyllt: vaxtalækkun, kaupmáttaraukning og lofaðar aðgerðir stjórnvalda. Enn sem komið er sé þó ljóst að vaxtalækkunarforsendan standist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert