„Ísland gefur og Ísland tekur“

Chris Burkard var kampakátur þegar hann kom í mark.
Chris Burkard var kampakátur þegar hann kom í mark. mbl.is/Hari

„Ísland gefur og Ísland tekur,“ segir Chris Burkard við blaðamann mbl.is eftir að hafa komið fyrstur í mark í WOW Cyclot­hon og sett nýtt einstaklingsmet. Hann kom á tímanum 52:36:19 og bætti fyrra ein­stak­lings­met Ei­ríks Inga Jó­hanns­son­ar, sem er 56:12:40.

Þegar hann kom í mark var hann mjög skýr, ákaflega glaður og þakklátur eftir afrekið. Það kom mörgum á óvart sem tóku á móti honum hversu vitrænn hann virkaði þrátt fyrir engan svefn síðustu 53 klukkustundirnar.

Hann viðurkenndi þó að örlað hafi á ofsjónum hjá honum undir lokin, hann taldi sig sjá hesta í þokunni og benti á að í fyrstu hefði hann haldið að áhorfendur væru einnig ofsjónir. Hann sagði líkamann vera vægast lúinn og lemstraðan.   

„Ég hlakka til að hitta móður mína og kærstu sem eru á leiðinni til landsins,“ segir Chris. Hann hefur komið til Íslands 34 sinnum og konan hans oft með honum. Hann hlakkar til að sýna móður sinni landið sem hún hefur aldrei sé áður. 

Endaspretturinn reyndi talsvert á Chris Burkard að sögn Óskars Páls Sveins­son liðsstjóra Chris Burkard í keppn­inni. Um tíuleytið var honum kippt upp í bíl sem fylgdi honum og hann færður í þurr föt og reynt að ná niður kuldaskjálftanum. Á þeim tíma var hann kominn örlítið lengra en Strandakirkja. Rignt hafði hressilega á hann síðustu klukkutímana.   

„Við þurftum að pína hann inn í bíl. Hann vill bara klára,“ sagði Óskar við mbl.is um klukkan hálf elleftu skömmu eftir að hann fór aftur af stað. 

Aðstæður voru hagstæðar á fyrri hluta leiðarinnar og var góður meðvindur nánast alveg austur í Jökuldal. Eftir það gekk það á víxl, meðvindur og mótvindur, að sögn Óskars.  

Fréttin verður uppfærð. 

Chris Burkard kom fyrstur í mark.
Chris Burkard kom fyrstur í mark. mbl.is/Hari
Vel var tekið á móti Chris þegar hann kom í …
Vel var tekið á móti Chris þegar hann kom í mark. mbl.is/Hari
Margir vildu ræða við Chris þegar hann kom í mark.
Margir vildu ræða við Chris þegar hann kom í mark. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert