Sala á Íslandspósti ekki komið til tals

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir skoðun fjármála- og efnahagsráðherra um að …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir skoðun fjármála- og efnahagsráðherra um að selja eigi Íslandspóst við fyrsta tækifæri ekki koma á óvart. Sjálf er hún þeirrar skoðunar að ekki sé tilefni til að selja fyrirtækið til einakaaðila heldur fylgja eftir þeim breytingum sem verða á rekstri Íslandspósts í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sala á Íslandspósti hefur ekki komið til tals innan ríkisstjórnarinnar að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, segir í viðtali í Fréttablaðinu í dag að hann vilji selja Íslandspóst til einkaaðila við fyrsta tækifæri. 

„Þetta hefur ekki verið rætt innan ríkisstjórnarinnar en þessi skoðun fjármálaráðherra þarf að sjálfsögðu ekki að koma á óvart. Það er nú það góða við þessa ríkisstjórn að við höfum ólíkar skoðanir,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. 

Bjarni segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að ekkert sé því til fyrirstöðu að selja Íslandspóst um leið og búið sé að koma lagaumgjörð um starfsemi þess í betra horf og gera nauðsynlegar breytingar á rekstri þess. 

Skýrsla sem Rík­is­end­ur­skoðun gerði fyr­ir Alþingi um Ísland­s­póst var kynnt á sam­eig­in­leg­um fundi fjár­laga­nefnd­ar og stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar á þriðjudag. Þar eru sett­ar fram nokkr­ar til­lög­ur til úr­bóta. Meðal ann­ars kem­ur fram það álit rík­is­end­ur­skoðanda að ástæða sé til að ráðast í marg­vís­leg­ar hagræðing­araðgerðir, einkum að sam­eina enn frek­ar dreifi­kerfi bréfa og pakka í þétt­býli.

Katrín segir að forgagnsverkefnið nú sé að fylgja eftir þeim breytingum sem verða á rekstri Íslandspósts í kjölfar skýrslunnar og telur hún ekki tilefni til að skoða mögulega sölu á fyrirtækinu. „Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé neitt sem ýti á það,“ segir Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert