Sala á Íslandspósti hefur ekki komið til tals innan ríkisstjórnarinnar að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, segir í viðtali í Fréttablaðinu í dag að hann vilji selja Íslandspóst til einkaaðila við fyrsta tækifæri.
„Þetta hefur ekki verið rætt innan ríkisstjórnarinnar en þessi skoðun fjármálaráðherra þarf að sjálfsögðu ekki að koma á óvart. Það er nú það góða við þessa ríkisstjórn að við höfum ólíkar skoðanir,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
Bjarni segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að ekkert sé því til fyrirstöðu að selja Íslandspóst um leið og búið sé að koma lagaumgjörð um starfsemi þess í betra horf og gera nauðsynlegar breytingar á rekstri þess.
Skýrsla sem Ríkisendurskoðun gerði fyrir Alþingi um Íslandspóst var kynnt á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þriðjudag. Þar eru settar fram nokkrar tillögur til úrbóta. Meðal annars kemur fram það álit ríkisendurskoðanda að ástæða sé til að ráðast í margvíslegar hagræðingaraðgerðir, einkum að sameina enn frekar dreifikerfi bréfa og pakka í þéttbýli.
Katrín segir að forgagnsverkefnið nú sé að fylgja eftir þeim breytingum sem verða á rekstri Íslandspósts í kjölfar skýrslunnar og telur hún ekki tilefni til að skoða mögulega sölu á fyrirtækinu. „Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé neitt sem ýti á það,“ segir Katrín.