Tæknifræðingurinn Þórður Þorsteinsson hjá Verkís fékk heldur betur sveittan hjólreiðatúr í dag er hann hjólaði í gegnum Egilsstaði í 26 stiga hita íklæddur umfangsmiklum leðurbúningi. Verkís er með tíu manna lið sem tekur þátt í WOW Cyclothone-hjólreiðakeppninni sem fer hringinn í kringum landið.
Þórður var mikið búinn að velta fyrir sér hvernig hann gæti stuðlað að því að liðið myndi afla sem mest fé fyrir sumarbúðirnar í Reykjadal, segir Lára Halla Sigurðardóttir, starfsmaður við kynningar hjá Verkís, í samtali við mbl.is
„Hann lagði til að ef við myndum ná að safna 200 þúsund krónum áður en komið væri til Akureyrar myndi hann hjóla í þessum leður-BDSM búningi.“
Ekki tókst að safna upphæðinni fyrir þann tíma og var uppátækinu frestað fram að Egilsstöðum að sögn Láru Höllu sem segir starfsfólk Verkís hafi lagt mikið á sig að safna þessum 200 þúsundum. „Þá beið hans bara að klæða sig í búninginn og hjóla í honum.“
Hún segir það ekki hafa verið auðvelt að hjóla í gegnum Egilsstaði í leðurbúningi þar sem var 26 stiga hiti í dag. „Hann var rosa feginn þegar hann var kominn í gegnum bæinn. Þetta var mjög sveitt, þú getur rétt ímyndað þér.“
Þórði er mjög annt um að safna fé fyrir sumarbúðirnar í Reykjadal sem reknar eru af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, að sögn Láru Höllu og útilokar hún ekki að hann taki upp á einhverju öðru til þess að vekja athygli á söfnuninni.
Lára Halla segir áhugasama geta fylgst með ferð liðsins á Facebook og Instagram.