„Það er ekki flóknara en svo að strax þegar ég er kominn í Hvalfjörðinn fæ ég meiðsli í aftari hnébót og varð að slá af,“ segir Eiríkur Ingi Jóhannsson aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að hætta keppni í WOW Cyclothon skömmu eftir miðnætti í nótt.
Þegar hann nálgaðist Öxnadal tóku sig svo upp hjá honum hnéskeljameiðsli sem háðu honum í hjólreiðakeppni í kringum Írland í fyrra.
„Maður vonast alltaf til þess að meiðslin lagist og maður geti farið að gefa í aftur. Ég var búinn að vera svona síðan níu kvöldið áður, þetta var meira en sólarhringur sem ég var að kljást við þetta. Það er ekkert gaman að hjóla hægt þegar maður getur hjólað miklu hraðar.“
Eiríkur segir að ákvörðunin um að hætta keppni hafi ekki verið svo erfið þegar þarna var komið við sögu. „Þetta er náttúrulega svekkjandi. Ég var búinn að gera mér grein fyrir því að ég var ekki að fara að eltast við draumatímann minn í þetta skipti,“ segir Eiríkur, sem efast ekki um að hann væri að etja kappi við Chris Burkard, sem gerir sig líklegan til að setja met í keppninni, væri líkaminn í lagi.
„Ég er ekki í nokkrum vafa um það að við hefðum verið að berjast um saman, ef maður hefði bara ekki verið fyrir framan hann. Ég hef aldrei séð svona skemmtilegan meðvind svona stóran hluta leiðarinnar,“ segir Eiríkur, sem var að taka þátt í WOW Cyclothon í fimmta sinn og á núverandi brautarmet í keppninni: 56:12:40.