3 ára fangelsi fyrir brot gegn barni

mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi í dag karlmann á þrítugsaldri í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni, en maðurinn braut gegn 13 ára gamalli stúlku í júlí í fyrra. 

Héraðssaksóknari ákærði manninn í desember fyrir nauðgun, kynferðisbrot gegn barni, brot gegn áfengis-og barnaverndarlögum með því að hafa afhent stúlkunni áfengi og fíkniefni og haft við hana samræði og látið hana hafa við sig munnmök. Þannig hefði hann beitt hana ofbeldi og nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar og traust hennar og trúnað til hans sem fyrrum þjálfar hennar. Á sama tíma hefði hann tekið af henni kynferðislegar hreyfimyndir á símann sinn sem lögregla lagði hald á.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn, sem var 22 ára þegar þetta gerðist, hafi frá upphafi kannast við að hafa haft kynferðismök við stúlkuna, eins lýst sé í ákæru. Hann neitaði því hins vegar að hafa haft nokkra vitneskju um að hún væri yngri en 15 ára og hélt því fram að kynferðismökin hafi átt sér stað með samþykki beggja aðila.

Héraðsdómur segir að frásögn stúlkunnar við skýrslutöku í Barnahúsi hafi bæði verið skýr og í alla staði trúverðug. Hún greindi m.a. frá því að maðurinn hefði vitað að hún væri 13 ára gömul. 

Héraðsdómur segir að maðurinn hafi verið fundinn sekur um alvarlegt kynferðisbrot gegn stúlkunni og sé brot hans til þess fallið að valda henni miska. Hann var því einnig dæmdur til að greiða henni 1.200.000 kr. í miskabætur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert