„Miklar áhyggjur af þessu“

Vinnuafl 210.200 manns, 16–74 ára, voru á vinnumarkaði í maímánuði.
Vinnuafl 210.200 manns, 16–74 ára, voru á vinnumarkaði í maímánuði. mbl.is/​Hari

„Ég hef miklar áhyggjur af því að það er vaxandi atvinnuleysi núna og það virðist ekkert vera í rénun,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

„Við héldum að það væri að koma skot en síðan myndi þetta lagast eins og gerist yfirleitt á sumrin. Atvinnuleysi fer minnkandi á sumrin vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustunni en það virðist ekki vera að gerast núna. Það er því fullt tilefni til að hafa miklar áhyggjur af þessu,“ segir Drífa.

Atvinnuleysið eykst samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar sem birt var í gær. Mældist það 6,1% af vinnuaflinu í maí en svo hátt hlutfall atvinnulausra hefur ekki sést í tölum Hagstofunnar frá í maí árið 2015. Ef tekið er tillit til árstíðabundinna sveiflna á vinnumarkaði mælist atvinnuleysið 4,7% á landinu öllu. Þetta er hæsta prósenta atvinnulausra eftir búið er að leiðrétta niðurstöðurnar að teknu tilliti til áhrifa árstíðasveiflu sem sést hafa í tölum Hagstofunnar frá því í október 2014.

„Við getum leitað í úrræðakistuna frá 2008. Það voru fjölmörg úrræði þar,“ segir Drífa í umfjöllun um atvinnuleysið í Morgunblaðinu í dag og rifjar upp aðgerðir sem gripið var til vegna atvinnuleysishrinunnar sem varð í kjölfar hrunsins. „Við erum búin að styrkja rétt fólks til atvinnuleysisbóta. Við gerðum það á meðan vel gekk. Atvinnuleysisbætur voru hækkaðar sem kemur sér vel núna og mildar höggið fyrir þá sem lenda í atvinnuleysi. En við erum að vinna að því um þessar mundir að greina þennan hóp og skoða til hvaða úrræða hægt er að grípa. Það fyrsta sem manni dettur í hug er það sem gert var afskaplega vel 2008, að styrkja fólk til að sækja sér endurmenntun og mennta sig inn í nýjar greinar. Það er eitt af því sem við munum að sjálfsögðu skoða þegar við erum búin að greina þennan hóp betur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert