Nemendur Seljaskóla fara í Fellaskóla

Frá slökkvistarfi eftir að eldur kom upp í Seljaskóla aðfaranótt …
Frá slökkvistarfi eftir að eldur kom upp í Seljaskóla aðfaranótt 12. maí. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samþykkt var á fundi borgarráðs í gær að útbúin verði aðstaða fyrir nemendur Seljaskóla í Fellaskóla á næsta skólaári meðan unnið er að því að laga og bæta húsnæði Seljaskóla.

Eldur kom upp tvívegis í skólanum á vormánuðum, í mars og maí, en í seinna skiptið var um íkveikju að ræða.

Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur fram að lausnin hafi verið metin hagkvæmust og best fyrir nemendur, til lengri og skemmri tíma.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins sagði viðhald á skólahúsnæði í Reykjavík í molum. Sífellt væri verið að slökkva elda og koma með skyndilausnir, eins og þá að færa skólastarf Seljaskóla í Fellaskóla. Tillögurnar hafi gríðarlegt rask í för með sér fyrir nemendur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins tók undir með kollega sínum úr Miðflokknum að nú biði nemenda mikið rask og óljóst hver framkvæmdatími á endurnýjum Seljaskóla verði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert