Ókeypis skimun skilar betri mætingu

Fyrstu fimm mánuði ársins hafa rúmlega tvöfalt fleiri konur mætt …
Fyrstu fimm mánuði ársins hafa rúmlega tvöfalt fleiri konur mætt í fyrstu skimun en á sama tímabili síðasta árs. Breytingin milli ára er að í ár er skimunin ókeypis. mbl.is/Eggert

Fjöldi 23 ára kvenna sem koma í fyrsta sinn í leghálsskimun og 40 ára kvenna sem koma í brjóstaskimun í fyrsta sinn hefur rúmlega tvöfaldast með nýju tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins sem býður konunum skimunina sér að kostnaðarlausu í ár. 

Stærstur hluti kvennanna segir að gjaldfrjáls skimun hafi hvatt þær til að taka þátt, að því er fram kemur í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu. Fyrstu fimm mánuði ársins hafa rúmlega tvöfalt fleiri konur mætt í fyrstu skimun en á sama tímabili síðasta árs.

Síðustu áratugi hefur heldur dregið úr þátttöku kvenna í brjósta- og leghálsskimunum. Margt spilar þar inn í, meðal annars greiðsluþátttaka kvenna. Krabbameinsfélagið ákvað á þessu ári að gera tilraun og bjóða ákveðnum hópum skimun þeim að kostnaðarlausu og gera um leið könnun á því hvort kostnaðurinn skipti máli. Könnunin leiðir í ljós sterkar vísbendingar um að greiðsla fyrir skimun hindri umtalsverðan hóp kvenna í að nýta sér skimunina.  

Almennt greiða konur 4.700 krónur fyrir leghálsskimun. Gjaldið er ákvarðað af stjórnvöldum. Tilraunin er alfarið fjármögnuð af Krabbameinsfélaginu og stendur út árið 2019.

23% hefðu ekki komið hefði þær þurft að borga

Konur sem eru í fyrsta sinn boðaðar í leghálsskimun eru 23 ára, fæddar 1996, og þær njóta góðs af verkefninu. Í könnuninni kom fram að 95% þeirra sem tóku þátt sögðu ókeypis skimun hafa hvatt þær til að mæta.

Konur eru eldri þegar þær eru fyrst boðaðar í brjóstaskimun, eða 40 ára, og nær verkefnið til kvenna sem fæddar eru 1979. 70% þeirra sögðu að gjaldfrjáls skimun hefði hvatt þær til að taka þátt. Þá sögðu 23% (82 konur) sem svöruðu könnuninni um leghálsskimun og 9% (29 konur) sem svöruðu um brjóstaskimun að þær hefðu ekki komið hefðu þær þurft að borga. 

„Þetta staðfestir það sem við höfum lengi haldið fram, að kostnaður við skimunina skipti máli. Krabbameinsfélagið telur afar mikilvægt að skimun verði gerð gjaldfrjáls, líkt og hún er í langflestum nágrannalöndunum, einkum til að tryggja jafnt aðgengi að skimun,“ er haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert