Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, telur Hæstarétt hafa tekið undir sjónarmið ALC í deilunni um farþegaþotu félagsins sem Isavia kyrrsetti við fall WOW air. Verði Isavia undir í deilunni við ALC gæti það leitt til þess að ALC krefji Isavia um skaðabætur sem nema meira en það sem Isavia hefur fengið út úr kyrrsetningunni til þessa, segir Oddur í samtali við mbl.is.
Hann segir jafnframt yfirlýsinguna sem Isavia sendi frá sér í dag vegna niðurstöðu Hæstaréttar fjarstæðukennda.
„Með niðurstöðu Hæstaréttar er staðfest það sem við héldum fram strax í upphafi þegar Isavia kærði niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar. Það er að Isavia gat ekki með einhliða kæru á höfnun héraðsdóms á aðfarargerð fengið einhverskonar endurskoðun á forsendum þeirrar höfnunar,“ útskýrir hann.
Við fall WOW air kyrrsetti Isavia flugvélina TF-GPA sem flugfélagið var með í leigu frá ALC vegna vangoldinna allra gjalda flugfélagsins við Isavia. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu í maí að Isavia hafi aðeins verið heimilt að krefjast greiðslu þeirra gjalda sem tengjast umræddri vél.
Isavia kærði málið til Landsréttar sem hafnaði aðfararbeiðni ALC um að fá vélina afhenta, en flugvélaleigan hefur greitt þau gjöld sem snéru að TF-GPA. Hæstiréttur ómerkti í dag úrskurð Landsréttar vegna ágalla í meðferð málsins og gerði Landrétti að fjalla um málið á ný.
„Eftir stendur þá að það er bara ein gild niðurstaða í málinu og það er upphafleg niðurstaða héraðsdóms. Hæstiréttur ógildir niðurstöðu Landsréttar vegna þess að réttarfarsleg nálgun Isavia, sem Landsréttur tók undir, á sér ekki stoð,“ staðhæfir Oddur.
Spurður um framhaldið svarar lögmaðurinn Hæstarétt hafa sent Landsrétti skýr skilaboð um að hafna upphaflegri kröfu ALC um að fá flugvélina afhenta, en sú krafa var sett fram áður gjöld sem tengdust þotunni voru greidd.
Þá segir hann næsta skref fyrir ALC vera „að leggja fram að nýju aðfarabeiðni við aðstæður svo breyttar, það er að segja eftir að búið er að greiða gjöldin fyrir þessa tilteknu farþegaþotu í samræmi við þennan eina gilda úrskurð sem er til um málið.“
„Þessi yfirlýsing sem kom frá Isavia fyrr í dag hún er auðvitað fjarstæðukennd, að halda því fram að í dómi Hæstaréttar felist einhverskonar viðurkenning á málatilbúnaði Isavia er auðvitað er eins fjarri og hægt er,“ segir Oddur.
Fram kom í tilkynningu frá Isavia í dag að úrskurður Hæstaréttar hafi staðfest heimild Isavia til þess að kyrrsetja flugvél ALC fyrir skuldum WOW air og að Hæstiréttur hafi verið að „bregðast við þeirri staðreynd að ALC kærði ekki úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og meðferð málsins fyrir Landsrétti eftir það.“
„Þessi yfirlýsing frá Isavia í dag er lélegur spuni og tilraun til þess að reyna einhvernvegin að setja málið í það ljós að í þessu er einhverskonar sigur fyrir þá, það er öðru nær,“ segir Oddur.
„Með þessum réttarfarsæfingum, sem Hæstiréttur var að dæma út af borðinu, er Isavia búið að tefja málið af ófyrirsynju um einhverjar sex vikur,“ segir lögmaðurinn.
„Ef niðurstaðan er sú að við höfum rétt fyrir okkur, sem við teljum okkur hafa, þá að sjálfsögðu teljum við að Isavia beri á því fulla ábyrgð að ALC hafi orðið fyrir tjóni á meðan þeir tefja málið,“ svarar Oddur spurður hvort ALC mun fara fram á skaðabætur vegna fyrrnefndra tafa.
Hann segist ekki hafa uppfærðar tölur um upphæðina, en að það mun skipta mörgum tugum milljónum króna. „Það er orðið verulega hærra en þau gjöld sem tengjast þessu tiltekna máli og búið er að greiða.“