Fyrrverandi starfsmaður Orku náttúrunnar, Áslaug Thelma Einarsdóttir, hefur lagt fram stefnu á hendur Orku náttúrunnar (ON) fyrir að hafa mismunað henni í launum á grundvelli kyns og þá krefst hún bóta fyrir ólögmæta uppsögn. Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld.
ON vísar ásökunum Áslaugar Thelmu á bug í tilkynningu á vef fyrirtækisins og kveðst „taka til varna fyrir dómstólum enda voru greidd óskert laun á samningsbundum uppsagnarfresti og rétt staðið að samningi um ráðningarkjör í upphafi“.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að fyrirtækið tjái sig ekki frekar um stefnuna á þessu stigi og vísar í yfilýsingu ON. Þá hefur Áslaug Thelma neitað að ræða við fjölmiðla í kvöld vegna stefnunnar.
Áslaugu Thelmu var sagt upp störfum haustið 2018, en hún hafði gegnt stöðu forstöðumanns einstaklingsmarkaðar hjá fyrirtækinu sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Fram hefur komið í tölvupóstum milli Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Áslaugar Thelmu, og Helgu Jónsdóttur, starfandi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að uppsögnin hafi verið vegna frammistöðuvanda.
Áslaug Thelma hefur hins vegar sagt uppsögn sína tengda samtölum við starfsmannastjóra fyrirtækisins og kvörtun vegna óviðeigandi framkomu framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, Bjarna Más Júlíussonar. Honum var vikið úr starfi tveimur dögum eftir uppsögn Áslaugar Thelmu.
Uppsögn Áslaugar Thelmu var metin lögmæt samkvæmt niðurstöðu úttektar á starfsmannamálum Orkuveitu Reykjavíkur voru kynntar í nóvember á síðasta ári. Þó var einnig komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi átt að fá skriflega skýringu á uppsögninni þegar hún átti sér stað, sem hún fékk ekki fyrr en nokkru síðar.
Í tilkynningu ON segir að Áslaug Thelma geri tvær kröfur gagnvart fyrirtækinu. „Annarsvegar að viðurkennt verði að Orka náttúrunnar hafi mismunað henni í launum á grundvelli kyns og varakrafa er að fyrirtækið sé bótaskylt vegna ólögmætrar uppsagnar hennar. Orka náttúrunnar hafnar báðum þessum kröfum og hefur falið lögmanni fyrirtækisins að taka til varna.“
„Síðari hluta árs 2018 var gerð ítarleg úttekt af óháðum sérfræðingum á starfslokum Áslaugar Thelmu, ásamt því að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði rannsókn á vinnustaðarmenningu innan Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga. Niðurstaða úttektarinnar var að uppsögnin var réttmæt,“ segir í tilkynningunni.
ON segist hafa verið „í fremstu röð við að uppræta kynbundinn launamun og auka áhrif kvenna í stjórnun fyrirtækisins“. Auk þess sem bent er á að jafnlaunakerfi þess hefur borið gullmerki PwC um árabil og nýtur viðurkenningar Jafnréttisstofu.
„Í stefnunni eru laun Áslaugar Thelmu borin saman við laun eins karlkyns stjórnanda í stöðu forstöðumanns hjá fyrirtækinu en alveg er sleppt samanburði við aðra forstöðumenn, karla jafnt sem konur. Mismunandi kjör þessara tveggja áttu sér málefnalegar ástæður, sem stefnandinn hefur fengið skriflegar útskýringar á.“
„Ég vonaði að þegar niðurstöður ítarlegrar óháðrar úttektar sérfræðinga lágu fyrir að fullnægjandi skýringar hefðu fengist um þetta starfsmannamál. Það er því afar leitt að standa enn í þessum sporum því þessi átök taka auðvitað á alla hlutaðeigandi, einnig starfsfólk Orku náttúrunnar,“ er haft eftir Berglindi Rán Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra ON, í tilkynningunni.
„Fyrst málið er komið er komið í þennan farveg, vonast ég til þess að það fái skjótan framgang sem marki þá endalok þess,“ segir hún.