Kristófer Oliversson formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir í samtali við Morgunblaðið að bakslag sé komið í gamla markmiðið hjá ferðaþjónustuaðilum hér á landi, að fá fram aukna dreifingu ferðamanna um landið og meiri dreifingu þeirra yfir veturinn.
„Þetta gekk rosalega vel, en nú er árstíðasveiflan að aukast og menn fara síður út á land. Að okkar mati er það óásættanlegt að stjórnvöld leggist ekki á sveif með okkur m.a. í markaðs- kynningar- og sölumálum nú þegar þjóðin horfist í augu við 100 milljarða samdrátt í útflutningstekjum. Sértækan skatt eins og gistináttaskatt á að fella niður umsvifalaust. Ef við ættum að nefna einhvern einn aðila sem tapar mestu á samdrætti í greininni, þá er það ríkissjóður Íslands, sem sést á því að endurskoða þurfti fjármálaáætlun þegar sló í bakseglin hjá okkur.“
Hvað næstu vikur og mánuði varðar segir Kristófer í Morgunblaðinu í dag, að það sé áhyggjuefni hvað verð á flugi til landsins hefur hækkað mikið, og hljóðið í mönnum í ferðaþjónustunni sé ekkert rosalega gott. Óvissa sé mikil.