„Gunnar var kominn hingað á undan Gísla og ég kynntist Gísla í gegnum hann,“ segir Kolbjørn Kristoffersen, kokkur, leiðsögumaður og hálfgerð eins manns veisluþjónusta í Mehamn í Finnmörku í Noregi. Kristoffersen starfar hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Nordkinn Nordic Safari þar sem verkefni hans deilast milli þess að elda ofan í ferðamenn, fara með þá í vélsleðaferðir, fjallaferðir og svokallað „isfiskeri“ þar sem rennt er fyrir fisk niður um vakir ísi lagðra vatna.
Kristoffersen ræðir þarna um þá hálfbræður Gísla Þór Þórarinsson heitinn og Gunnar Jóhann Gunnarsson en sá síðarnefndi situr nú í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa skotið hálfbróður sinn til bana í Mehamn aðfaranótt 27. apríl. Hefur Gunnar gengist við verknaðinum og bíður nú ákæru og dóms sem ekki verður hans fyrsti en Gunnar hefur áður hlotið refsidóma á Íslandi.
„Ég hitti Gísla fyrst þegar Gunnar tók hann með á pókerkvöld, við erum hópur hérna sem hittumst annað slagið og spilum póker,“ rifjar Kristoffersen upp. „Smám saman þróuðust málin þannig að ég hafði lítinn áhuga á að umgangast Gunnar. Mér mislíkaði ýmislegt í fari hans. Ég kunni aldrei við Gunnar,“ segir Kristoffersen og er auðheyrt að honum er þungt í skapi þegar hann rifjar upp kynni sín af Gunnari.
„Svo þróast þetta þannig að við Gísli förum að hittast meira, hann var afskaplega opin og góð manneskja og féll manni einhvern veginn strax í geð. Ekki spillti það fyrir að við vorum báðir harðir Liverpool-menn og hittumst oft yfir leikjum, fengum okkur bjór og studdum okkar menn,“ segir Kristoffersen og hlær við minninguna.
„[Hálf]bróðir hans var öðruvísi, hann kunni því illa að ég umgengist Gísla og reyndi að hindra það. Síðasta mánuðinn áður en Gísli dó náðum við þó vel saman og urðum nokkuð nánir. Þá vissi ég auðvitað að þau Elena voru byrjuð að draga sig saman og þar blómstraði ástin sannarlega. Þau áttu hvort annað skilið og Gísla var mjög í mun að sinna Elenu og börnunum. Gísli hafði allt annan mann að geyma en hálfbróðir hans, það get ég sagt þér,“ segir Kristoffersen. Mitt í allri sorginni skýtur skemmtileg saga upp kollinum.
Sú atburðarás sem mbl.is hefur sett saman um morguninn 27. apríl, eftir að hafa rætt við fimm aðila sem þekkja til þess hvað gerðist um nóttina, er eftirfarandi: Fjórir menn, Gunnar, annar Íslendingur, sem grunaður er um aðild að málinu, og tveir Norðmenn, voru komnir heim til Gunnars eftir ferð um bari Mehamn og sátu að drykkju. Mun Gunnari hafa orðið tíðrætt um að fara heim til hálfbróður síns þrátt fyrir nálgunarbann en hinir þrír reynt með öllum ráðum að telja honum hughvarf. Ekki er hægt að fullyrða um atburðarásina svo óyggjandi sé, hvernig skotvopnið kom til eða hverjir voru viðstaddir á heimili Gunnars þegar hann hélt í förina örlagaríku en hitt er ljóst, hver málalokin urðu.
Gunnari var úrskurðað áðurnefnt nálgunarbann gagnvart hálfbróður sínum og kærustu hans 17. apríl eftir að Gísli og Elena höfðu tilkynnt lögreglu um morðhótanir hálfbróður Gísla í þeirra garð. Lögregla tilkynnti Gunnari um nálgunarbannið símleiðis og sætti sú stjórnsýsla nokkurri gagnrýni, meðal annars af hálfu Mariusar Nilsen sem ræddi við vefmiðilinn iFinnmark í maí um vinnubrögð lögreglu en sá sem hér skrifar hitti Nilsen einmitt í Mehamn fyrir viku. Taldi hann lögreglu hiklaust hafa átt að senda fulltrúa sína á heimili Gunnars til að ræða við hann, afhenda honum bannið skriflega og veita honum alvarlegt tiltal.
Annað þrætuepli í málinu er hvort Gunnar Jóhann hafi haft aðgang að skotvopni áður en til harmleiksins kom, en svo hefur verið hald einhverra, þar á meðal Elenu Undeland, Gísla Þórs heitins, kærasta hennar, og annarra vitna sem mbl.is hefur rætt við, og hafði lögreglu verið tilkynnt um þennan meinta vopnaburð fyrir víg Gísla.
Torstein Pettersen, deildarstjóri rannsóknardeildar Finnmerkurlögreglunnar og stjórnandi rannsóknarinnar í máli hálfbræðranna, fullyrti við mbl.is og norska vefmiðilinn iFinnmark í maí að Gunnar Jóhann hefði útvegað sér skotvopnið sama morgun og hann réð hálfbróður sinn af dögum en mbl.is hefur einnig fengið að heyra þrálátan orðróm í Mehamn frá mörgum heimildarmönnum um að skotvopn hafi horfið úr báti sem Gunnar og annar Íslendingur, sem grunaður er um aðild að málinu, hafi haft að láni fyrir nokkru. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest og vísar lögreglan í Finnmörku því alfarið á bug. Ef að líkum lætur kemur uppruni skotvopnsins fram við réttarhöldin í vetur.