Öll liðin sem tóku þátt í WOW Cyclothon eru komin í mark og er keppninni formlega lokið. Allt gekk vel, engin slys urðu og söfnunin er enn í gangi fyrir sumarbúðirnar í Reykjadal, segir Stefanía Gunnarsdóttir hjá WOW Cyclothon.
Fyrsta og eina fullgilda kvennaliðið í allri keppninni sem nefnist, CTS - ICE ICE Baby, kom í mark á rúmum 57 klukkustundum. Þær eru allar erlendar og þekktust ekki fyrir keppnina.
Lið parkinson power kom í mark a fimmta tímanum í nótt. Liðið lenti í ýmsum skakkaföllum á leiðinni en allir komu þó heilir í mark.
Eina konan, Terri Huebler sem keppti í einstaklingskeppninni, er hætt að hjóla. Hún ætlar að nota restina af deginum til að skoða landið á leiðinni í bæinn, fara í heita laug og mæta í partý í kvöld, að sögn Stefaníu.
Fyrstur í mark var Bandaríkjamaðurinn Chris Burkard sem setti nýtt einstaklingsmet. Hann kom á tímanum 52:36:19 og bætti fyrra einstaklingsmet Eiríks Inga Jóhannssonar, sem er 56:12:40
Lið Airport Direct kom í mark fyrst liða í WOW Cyclothon en fast á hæla þeirra var lið World Class. Þau hjóluðu hringinn á um 37 klukkustundum.
Fréttin hefur verið uppfærð