„Rasismi er daglegt brauð. En ég sé mig aldrei sem fórnalamb. Ef ég get breytt mínu sjónarhorni er það eins og að breyta heiminum. Ef fólk kastar til þín steinum þá gefur þú því rósir,“ segir Muhammed Emin Kizilkaya, 25 ára félagsfræðinemi.
Muhammed er fæddur og uppalinn í Danmörku en á rætur sínar að rekja til Kúrdistan. Móðir hans fluttist til Danmerkur þegar hún var aðeins þriggja ára gömul, en faðir hans var aftur á móti 23 ára. Fjölskylda Muhammed er upphaflega frá Asíuhluta Tyrklands og á hann ættir sínar að rekja þangað langt aftur. Í dag er móðir hans skólastjóri í Danmörku og faðir hans vinnur sem dýralæknir fyrir danska ríkið.
Muhammed kom fyrst til Íslands árið 2013 til að læra félagsfræði.
„Ég vissi ekki fyrirfram að námið yrði allt á íslensku, þannig það var ekki fyrr en ég var kominn hingað að ég áttaði mig á því að allt yrði á íslensku. En þegar ég ákveð að gera eitthvað geng ég ekki frá því hálfkláruðu. Ég ákvað að vera áfram og lærði íslensku í níu mánuði áður en byrjaði í BA námi í félagsfræði. Núna er ég á seinna árinu mínu í meistaranámi og náði að fara í gegnum þetta allt á íslensku,“ segir Muhammed, en auk íslensku talar hann dönsku, ensku, þýsku, kúrdísku og tyrknesku, auk þess sem hann kennir arabíska málfræði.
Muhammed segir að móðurafi hans hafi komið til Danmerkur í lok 7. áratugarins þegar mikið af vinnuafli frá Miðausturlöndum hafi streymt til Evrópu.
„Afi minn var 17 ára þegar hann kom til Danmerkur sem innflytjandi af fyrstu kynslóð. Þegar þessi fyrsta kynslóð innflytjenda kom til Evrópu áttu þeir bara að vera tímabundið vinnuafl. Þegar afi minn kom til Danmerkur voru amma mín og mamma eftir í Tyrklandi því hann ætlaði að koma aftur. En þegar maður flytur til nýs lands getur maður fests þar. Svo amma mín ákvað að flytja með mömmu mína. Þegar maður byrjar að festa rætur er erfitt að fara til baka.“
„Það eru margir af eldri kynslóðum en ég sem eiga sér ennþá fjarstæðukenndan draum að fara aftur. En þegar börnin manns fara í danska skóla, eiga danska vini, tala góða dönsku… þá fyrir þeirra sakir er erfitt að fara aftur. Afi minn segist ennþá ætla að fara aftur en það gerist aldrei,“ segir Muhammed.
Þegar faðir Muhammeds, Mustafa, kom fyrst til Danmerkur var hann einn á báti og átti fyrst um sinn erfitt uppdráttar, þrátt fyrir að vera í dag embættismaður hjá dönskum heilbrigðisyfirvöldum.
„Það hefur verið mjög erfitt fyrir pabba minn að vera innflytjandi í Danmörku. Hann fór í gegnum allskonar erfiðleika til að ná markmiðum sínum.“
„Þegar fólk kemur til Evrópu frá Miðausturlöndum þarftu oftast að byrja námsferilinn upp á nýtt. Þú þarft líka að læra nýtt tungumál og fullt af fólki gefst bara upp. Pabbi minn ákvað að gefast ekki upp. Hann var búinn með meistaragráðuna sína þegar hann kom frá Tyrklandi og þurfti að gera allt upp á nýtt þegar hann kom til Danmerkur. Þegar ég þarf einhverja hvatningu skoða ég gömlu bækurnar sem hann þurfti að lesa. Hann þýddi hvert einasta orð frá dönsku yfir á tyrknesku, frá tyrknesku yfir á ensku svo hann gæti lært tvö tungumál,“ segir Muhammed.
„Eftir námið tók við annað vandamál, hann átti í erfiðleikum með að finna vinnu. Hann heitir Mustafa, hann var nýkominn til landsins. Á endanum fann hann vinnu og hann er góðri stöðu í dag en þetta var ekki auðvelt.“
Muhammed segist vera stoltur af kúrdönsku þjóðerni sínu og trú sinni. Hann segir kynþáttahyggju og -hatur vera víða, en að hann hafi alltaf einsett sér að svara hatri með kærleik.
„Ég hef upplifað rasisma frá öllum hliðum. Ég hef upplifað rasisma fyrir það að vera Kúrdi. Ég hef upplifað rasisma út af útlitinu mínu og út af trúnni minni. Ég held að ástæðan fyrir því að ég valdi félagsfræði sé einmitt þessi. Ég vil breyta þessu.“
Muhammed segir að þegar hann hafi fyrst komið til Íslands fyrir sex árum hafi hann ekki upplifað annað en vinsemd í sinn garð frá Íslendingum. Síðan þá hafi hann þó tekið eftir því að rasismi og fordómar hafi færst í aukana, enda sé það ekki einskorðað við Ísland.
„Rasismi hefur kannski ekki aukist beint heldur er hann orðinn öfgafyllri. Eftir því sem það verður öfgafyllra, því meira pláss tekur það. Yngri kynslóðir ferðast meira en þær eldri gerðu og eru miklu frekar að taka í sátt hvernig alþjóðavæddur heimur lítur út. Eldri kynslóðir eru þess vegna kannski líklegri til að upplifa þennan ótta, á meðan þær yngri eru betur upplýstari. En eitt á ekki við alla. Meirihlutinn vill berjast gegn þessu,“ segir Muhammed.
Aðspurður af hverju hann haldi að kynþáttahatur sé orðið öfgafyllra telur hann að það haldist í hendur við breytt pólitískt loftslag á síðustu árum.
„Ég held að sá rasismi sem er til staðar í samfélaginu er orðin öfgafyllri því í stjórnmálum og fjölmiðlum má alltaf segja meira og meira í nafni tjáningarfrelsisins. Við höfum stjórnmálaleiðtoga í dag sem eru góðir að nota samfélagsmiðla til að koma skilaboðum sínum á framfæri,“ segir Muhammed og tekur sem dæmi Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Hann telur kosningabaráttu Trump hafa meðal annars gert rasisma öfgafyllri í Bandaríkjunum og bætir við að þegar stjórnmálamenn noti hatur til að kynda undir stuðning við sig sé hætta á að sagan endurtaki sig. Þá segir hann fjölmiðla hafa að mörgu leyti ýtt undir þessa þróun þó að það eigi alls ekki við alla miðla.
„Það skiptir ekki máli hvaða miðla þú skoðar. Það er alltaf eitthvað um múslima. Þingkosningarnar í Danmörku snéru að mjög miklu leyti um innflytjendur og múslima. Þetta eru mjög einföld stjórnmál. Fjölmiðlar spila stórt hlutverk í að kasta bensíni á bálið þegar kemur að fáfræði gagnvart múslimum og rasisma. Það þarf að hugsa um afleiðingarnar, hvaða orð maður notar,“ segir Muhammed.
Muhammed segist alltaf hafa lagt áherslu á það að reyna að fræða fólk um trú sína þegar hann upplifir fordóma, frekar en að fara í vörn.
Hann stofnaði ásamt vinum sínum samtökin Horizon fyrir nokkrum árum, en samtökin hafa það að markmiði að tengja saman ólík trúarbrögð og menningarheima í gegnum samræður og skemmtilega viðburði. Þá sér Horizon einnig um að halda stærstu stærðfræðikeppni á Íslandi, Pangea.
Muhammed segir að innan Horizon sé fólk af öllum trúarbrögðum sem hafi það að markmiði að auka frið í samfélaginu. Samtökin hafi skýr skilaboð og markmið og kenna sig ekki við nein trúarbrögð, stjórnmál eða menningu.
„Einu sinni fórum við í Horizon á landsmót Samfés. Ég var með ræðu þar fyrir framan fullt af krökkum og eftir ræðuna kom hópur af þeim hlaupandi til mín. Þau báðu um að spyrja mig spurninga og ég sagði að það væri sjálfsagt. Þá spurði einn strákur mig „af hverju er fólk að hata ykkur?“
„Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja og spurði hann til baka „hata mig?“ og hann spurði hvort ég væri ekki múslimi, fólk hataði múslima. Ég vissi ekkert hverju ég átti að svara og sagði honum bara að í heiminum væri til fólk sem vissi ekki betur.“
„Eins og maður getur deilt góðum hlutum með börnum getur maður líka deilt slæmum hlutum. Ég held að þessir krakkar hafi fylgst með og hlustað á foreldra sína og að þetta komi þaðan. Þessi ótti kemur þaðan. Þetta kemur að heiman,“ segir Muhammed.
„Rasismi er bara skortur á þekkingu. Þú óttast hluti sem þú þekkir ekki neitt. Ég heyri svo oft bara „vá ég vissi ekki að þú værir svona. Það sem ég sé er bara það sem er í fjölmiðlum.“ Ég get fullvissað þig um það að fólk sem breiðir út þessa fáfræði hefur aldrei hitt múslima áður. Öflugasta vopnið er þolinmæði og staðreyndir.“
„Heimurinn er fyrir þér bara alveg eins og þú vilt sjá hann. Maður þarf að horfa á sig í speglinum og spyrja sig hvort að þú sért ástæðan fyrir þeim vandamálum sem þú ert að upplifa. Það er bara raunveruleikinn að sumt fólk breiðir út rasisma og fáfræði og þetta er oftast fólk sem hefur aldrei hitt eða upplifað hina hliðina. Það er þekkingarskorturinn sem skapar óttann. Þá ert það þú sem ert vandamálið,“ segir Muhammed.
Muhammed segir að trúarofstækismenn og hryðjuverkasamtök á borð við Ríki íslam hafa án efa ýtt undir fordóma gagnvart múslimum á Vesturlöndum. Hann segir mikilvægt að fólk muni að langflestir múslimar fordæmi hryðjuverkaárásir í nafni trúarbragða alveg jafn mikið og fólk af öðrum trúarbrögðum. Hann segir hryðjuverkamenn vera veika einstaklinga sem þekki ekki trúna og að það sé sorglegt að þeir skuli misnota hana í tilraun til að réttlæta hörmulega glæpi sem verði aldrei réttlætanlegir.
„Þessir hópar eru um 0,01% af múslimum. Og það er skrítið að fólk sér það ekki, ég vil ekki alhæfa, en sumir bara sjá þetta ekki. Ég held að þessi brennimerking, að múslimar séu hryðjuverkamenn, sé af því að fjölmiðlun er ekki eins og hún var. Ég held að þetta sé aðeins að minnka af því fólk er að mótmæla þessu. En þetta gerist ennþá oft, fólk er að reyna að skapa ótta í samfélaginu og vill vera hetja óttans. Ég held að þessir hópar hafi orðið öfgafyllri af því að þeir eru undir pressu, þeir eru að fjara út. Þeir finna að þeirra sjónarmið og þeirra viðleitni skiptir engu máli. Þeir ná ekki að ráða við heiminn. Fólk sem er öfgafullt er oftast eitt í heiminum,“ segir Muhammed og rifjar upp hryðjuverkárásina í París í nóvember 2015 þegar 130 manns létust.
„2015 var eitt versta ár lífs míns. Ég man eftir hryðjuverkaárásinni í París. Ég gat ekki farið á netið, ég var raunverulega hræddur um að einhver myndi meiða okkur. Maður reynir að gera góða hluti, við reynum að búa til frið og kærleik í samfélaginu og förum kannski tvö skref áfram. Svo gerist eitthvað eins og þetta og maður fer 10 skref aftur á bak.“
„Manni finnst öll vinnan sem maður hefur lagt í að búa til friðsamlegt samfélag hafa verið til einskis, svona hópar eyðileggja það. Maður verður reiður. Svo sér maður stjórnmálamenn og fjölmiðla byrja að nota orðin íslamisti og múslimi, að blanda trúnni í þetta. Í Kóraninum segir til dæmis að ef þú drepir eina manneskju drepir þú allt mannkynið. Þessir hópar eru að gera akkúrat öfugt við það sem trúin segir manni að gera. Þeir þekkja ekki trúna.“
Muhammed er mjög trúaður og segir trúna hafa kennt honum að vera góður við aðra og leita ávallt að því góða í fólki í staðinn fyrir að sjá strax hið slæma og dæma manneskju út frá því.
„Trúin er mér allt í lífinu. Hún er samviska mín, jafnvægi, friður, kærleikur. Hún er takmörk mín, ég má ekki blóta, ekki meiða, ekki ljúga, ekki rógbera. Hún er morguninn minn, kvöldið mitt, allt. Trúin kennir mér að lifa. Í gegnum trúna verður maður virkur þegn í samfélaginu því þekking, staðreyndir og vísindi eru stór hluti af því að kynnast skapara sínum.“
Muhammed segist alltaf upplifa fordóma vegna trúar sinnar af og til en að hann láti það ekki á sig fá. Hann hafi þess í stað kosið að nýta tækifærið þegar fólk kemur illa fram við hann til að fræða það um trúna.
„Það eru alltaf ákveðin atvik af og til. En ég tek því sem sjálfsögðum hlut núna. Ég horfi ekki á mig sem fórnalamb. Ég held að sú staðreynd að ég hafi tækifærið til að breyta þessu geri mig ánægðari fyrir vikið. Rasismi er ekki illska, rasismi er fáfræði. Fólk sem er rasistar er bara hrætt.“
„Ég var einu sinni að læra á bensínstöð um miðja nótt. Það nálgaðist mig maður og spurði mig hvort ég væri múslimi og ég svaraði bara já. Þá byrjaði hann að hóta mér og segja að ég gæti verið myrtur úti á götu því Íslendingum líkaði ekki við „okkur“. En ég hef gengið í gegnum þetta svo oft áður, lét þetta bara fara framhjá mér.“
„Við enduðum á að ræða saman heillengi. Fyrst var hann æstur og byrjaði að hóta mér meira og meira og reyna að snerta eitthvað við mér en ég hlustaði bara með þolinmæði. Stundum geymir fólk bara reiði innra með sér sem það verður að koma frá sér. Á endanum tæmist hún. Þá breyttist samræðan og á endanum urðum við bara vinir og hann faðmaði mig áður en hann fór,“ segir Muhammed og rifjar upp annað atvik sem átti sér stað fyrir nokkrum árum.
„Ég stofnaði eigið ferðaþjónustufyrirtæki og einu sinni var ég að keyra um bandaríska ferðamenn. Þegar ég kom og sótti þau á hótelið fann ég að þeim leið óþægilega þegar þau sáu að ég væri ekki íslenskur. Þegar við lögðum af stað fóru þau að spyrja mig allskonar spurninga. „Hvaðan ertu, ertu íslenskur?“ og ég sagði „nei ég er ekki íslenskur, ég heiti Muhammed“. Um leið og ég sagðist heita Muhammed galopnuðu þau augun og spurðu hvort ég væri múslimi. “
„Þá byrjuðu þau að spyrja mig allskonar fáránlegar spurningar. „Afsakaðu Muhammed er rétt að múslimar berja systur sínar? Afsakaðu Muhemmed er rétt að múslimar steini hvorn annan?“ og ég svaraði bara „uu dömur mínar og herrar hérna til hægri sjáum við Esjuna,“ segir Muhammed kíminn.
„Þau héldu bara áfram að spyrja mig allskonar fáránlegra spurninga og á endanum sagði ég þeim bara að spyrja um hvað sem þau vildu. Við enduðum á að tala um trúna mína allan tímann. Ég veit að þetta fólk var bara að spyrja mig að þessu til að prófa þolmörk mín, en þegar upp er staðið þá svara ég því þau þurfa að vita þetta. Þó að þau væru að spyrja mig allskonar mjög móðgandi spurninga þó tók ég þeim bara opnum örmum og svaraði.“
Muhammed segir fólkið hafa verið af mjög sérstakri kynslóð. Á meðal þeirra voru gamlir hermenn úr Víetnam stríðinu, þau voru mjög íhaldssöm og lofuðu Donald Trump mikið.
„Einn mannanna var mjög ákveðin týpa. Hann sagði til dæmis einu sinni: „Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna, ef einhver labbar inn á mína lóð þá má ég skjóta hann beint í hausinn“ og svo framvegis. Þetta er karakterinn.“
Þess vegna hafi það komið honum verulega á óvart í lok ferðarinnar þegar maðurinn sagði aðspurður að það besta við ferðina til Íslands hafi verið að hitta Muhammed.
„Við höfum ferðast út um allan heim og séð nóg af fossum og fjöllum. Þetta er ekkert nýtt fyrir okkur. En ég skal segja þér, þú ert það besta við ferðina. Ég hef verið mjög fáfróður og ég skammast mín fyrir það. Núna vil ég bara faðma þig,“ hefur Muhammed eftir manninum.
„Þessi maður var ekki vondur. Hann var hræddur en það hvarf með reynslu, samskiptum og þekkingu. Hann breyttist og það er eins og mannkynið myndi breytast. Þú sáir fræi sem verður að blómi sem framleiðir mörg fræ til viðbótar. Heimurinn er eins og þú gerir hann.“
„Ári seinna komu þau aftur til Íslands með alla fjölskylduna og vildu hitta mig í leiðinni. Þau komu fram við mig eins og þau væru amma mín og afi. Ég er nokkuð viss um að mér hafi tekist að breyta hugarfari þeirra. Það er alltaf markmiðið.“