Andlát: Bjarki Már Sigvaldason

Bjarki Már perlar fyrir Kraft.
Bjarki Már perlar fyrir Kraft. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Már Sigvaldason lést á fimmtudag, 27. júní, eftir sjö ára baráttu við krabbamein, 32 ára að aldri. 

Bjarki fæddist 12. apríl 1987. Hann lætur eftir sig eiginkonu sína, Ástrós Rut Sigurðardóttur, og dótturina Emmu sem fæddist í byrjun september 2018. 

Bjarki var vinamargur og hefur hans verið minnst með hlýhug af ættingjum og vinum síðustu daga. Honum er lýst sem góðhjörtuðum, auðmjúkum, lífsglöðum og traustum. 

Bjarki spilaði lengi vel knattspyrnu með HK og spilaði þar með meistaraflokki þar til hann veiktist. 

Bjarki spilaði lengi vel knattspyrnu með HK og spilaði þar …
Bjarki spilaði lengi vel knattspyrnu með HK og spilaði þar með meistaraflokki þar til hann veiktist.

Bjarki missti aldrei lífsviljann eða baráttuhug sinn í gegnum veikindi sín. Hann og Ástrós voru alla tíð mjög opinská um veikindi Bjarka og var umhugað um baráttu krabbameinssjúklinga og aðstandenda. 

Þau hjónin ferðuðust víða og gerðu margt saman. Í viðtali við Ísland í dag síðasta vetur sagðist Bjarki leggja áherslu á að lifa einn dag í einu og naut hann hverrar stundar svo eftir var tekið. Hann barðist eins og hetja við þann illvíga óvin sem krabbamein er en varð að lokum að lúta í lægra haldi. 

Ástrós skrifaði í gær fallega færslu á Facebook síðu sína þar sem hún minnist eiginmanns síns. Þakkar hún Bjarka fyrir ferðalög, dóttur þeirra, hjónabandið og samfylgdina í gegnum lífið.  

Á meðal þeirra vina sem minnst hafa Bjarka er markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson sem spilaði með Bjarka í HK. Hann segir Bjarka hafa verið keppnismann sem tæklaði ósanngjarnar aðstæður af auðmýkt, ást og baráttu. 

Bjarki var 25 ára árið 2012 þegar hann greindist með ristilkrabbamein. Í októ­ber 2013, ári eft­ir fyrstu grein­ingu, greind­ist hann með mein­vörp í lung­um og ári síðar uppgötvuðust meinvörp í heila Bjarka. 

Bjarki barðist alla tíð hetjulega og reyndi allar meðferðir sem stóðu til boða. Flestir þeir sem greinast með 4. stigs ristilkrabbamein lifa aðeins í 2 ár, en með viljastyrk sínum og góðu fólki á bakvið sig lifði Bjarki í 7 ár frá greiningu í faðmi fjölskyldu og vina. 

HK og Breiðablik tókust á í styrktarleik fyrir Bjarka í …
HK og Breiðablik tókust á í styrktarleik fyrir Bjarka í lok síðasta árs. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert