Dauðinn bíður okkar allra

Húsavíkurkirkjugarður.
Húsavíkurkirkjugarður. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Það er fátt sem við vitum um líf okkar fyrirfram. Það eina sem við vitum er að við deyjum og við deyjum bara einu sinni, eða flest okkar allavega. Útfarir eru stór hluti af þeim verkefnum sem þjóðkirkjan tekst á við í sínu starfi. Bæði er það útförin sjálf og svo allt sem henni fylgir, eins og að veita aðstandendum sáluhjálp.

„Þessar athafnir; skírn, ferming, gifting, þetta eru allt gleðistundir, en svo aftur á móti þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum þá sem betur fer skortir okkur öll reynslu á því sviði,“ segir Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands. Hann segir að við kunnum frekar að halda gleðilega hátíð en sorgarathöfn og að fólk leiti frekar í hefðirnar.

„Prestar taka þátt í mestu gleðistundum og dýpstu sorgarstundum fólksins. Áður fyrr var það sjálfgefið hvernig kirkjan kom að lífi fólksins en núna hefur fólk val. Það getur snúið sér til Siðmenntar eða eitthvað annað. En það hefur líka val um þjóðkirkjuna. Þetta er allt undir því komið að fólkið sjálft sæki þjónustuna, “ segir Hjalti. „Á sama tíma vitum við að væntingar fólks eru að breytast í þessum efnum og fólk er farið að óska eftir fleiri veraldlegum söngvum og tónlist við útfarir,“ segir Hjalti.

Hjalti Hugason prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands.
Hjalti Hugason prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Það er rétt sem Hjalti segir að margt hefur breyst í kringum jarðarfarir og eru þær að einhverju leyti orðnar veraldlegri. Rannsókn Búa Stefánssonar, þjóðfræðings, árið 2014 leiddi í ljós að þessi þróun hefur staðið frá því á tíunda áratug síðustu aldar og að lagavalið hefur breyst frá trúarlegum sálmum yfir í lög sem sá látni valdi fyrirfram eða eftirlætislög hins látna. Sama má segja um minningargreinar en rannsókn Arnars Árnasonar, Baldurs Sigurjóns Hafsteinssonar og Tinnu Grétarsdóttur leiddi í ljós að í lok síðustu aldar fóru minningargreinar að breytast með þeim hætti að þær urðu persónulegri, opinskárri og jafnvel talað við þann látna í greinunum.

Mega ekki halda útfarir í kirkjum

Athöfnum á vegum Siðmenntar hefur fjölgað síðustu ár. Fermingum hefur fjölgað hvað mest á vegum félagsins en í ár voru fermingarbörnin 545, eða tæplega 13 prósent af öllum börnum fæddum árið 2005. Það segir þó ekki alla söguna en fyrir tíu árum var hlutfall fermingarbarna sem fermdust borgaralega aðeins tæp þrjú prósent.

Félagið býður einnig upp á nafngjafir, hjónavígslu og útfarir. Fjöldi allra þessa athafna hefur aukist, en útförunum hefur fjölgað hvað minnst, en árið 2018 kom Siðmennt að ellefu útförum. Árið 2017 kom félagið að 15 útförum, en samkvæmt tölum Hagstofunnar dóu 2.239 manns á því ári svo að hlutfallslega sækja fáir til Siðmenntar í þeim efnum.

Siggeir F. Ævarsson framkvæmdarstjóri Siðmenntar.
Siggeir F. Ævarsson framkvæmdarstjóri Siðmenntar. mbl.is/RAX

Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar, segir að áður en félagið fór að taka að sér útfarir hafi lítið verið í boði fyrir fólk sem vildi ekki vera jarðað af presti. Hann telur að það sé ýmislegt sem hafi áhrif á það að útförum hjá Siðmennt hefur ekki fjölgað mikið. Hefðirnar tosi oft mikið í fólk hvað útfarir varðar, en einnig að fólki viti kannski ekki endilega hvað er í boði.

„Síðan er spurningin líka hvar verður útförin haldin. Ég sendi inn fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið um daginn til að reyna að fá það á hreint hvar þessir óvígðu reitir eru. Sumum er alveg sama hvar þeir hvíla en aðrir vilja ekki sjá að það sé vígð jörð í kringum þá,“ segir Siggeir.

Félagið er ekki með húsnæði sem það getur boðið upp á, hvorki fyrir útfarir né aðrar athafnir á vegum þess. Auk þess er aðeins hluti af athafnastjórum þeirra þjálfaður í að sinna útförum. „Við erum að skoða þetta því okkur langar að stækka þetta og bjóða upp á þessa þjónustu fyrir alla sem þess óska. Mín kenning er sú að ef við þjálfum fleiri athafnastjóra í þessu þá sjálfkrafa verður til betra tengslanet og þetta spyrst út,“ segir Siggeir.

Siðmennt má ekki halda athafnir sínar í kirkjum þjóðkirkjunnar. Þau hafa fengið að halda útfarir í Fossvogskirkju, en hún tilheyrir ekki neinum söfnuði. Útfarir á vegum þeirra hafa einnig verið haldnar í félagsheimilum og bíósölum. Siggeir segir að oft geti komið upp ýmis vandamál þegar jarðarför er ekki haldin í kirkju, en erfitt getur verið að koma kistunni að.

„Það væri æskilegt að ríkið legði til húsnæði sem væri ekki með neinum trúartáknum, þótt það sé ekki ritað í stefnuskrá Siðmenntar að krefja ríkið um slíkt. Meira að segja í Fossvogskirkju, þar sem flestar útfarir á okkar vegum eru haldnar, eru krossar, sem stuðar suma. Við erum örugglega ekki að fara að byggja okkar eigið húsnæði á næstunni en ég væri algjörlega fylgjandi því að ríkið myndi leggja til hlutlaust hús handa öllum. Raunar held ég að það sé löngu kominn tími til að endurskoða lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu,“ segir Siggeir.

Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur í Langholtskirkju.
Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur í Langholtskirkju. mbl.is/RAX

Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur í Langholtskirkju, segir að hún hafi oft rætt við fólk sem segist ekki vera trúað. Ekki síður er setningin „ég er nú ekki mjög trúuð“ algeng. En þegar talið berst að dauðanum og sýninni á lífið og líf eftir dauðann orði manneskjan mjög skýrar kristnar lífsskoðanir. „Ég held að kristnar lífsskoðanir, þá sérstaklega hvað varðar dauðann, séu alveg rótgrónar inn í okkur öll, meira að segja óháð aldri. Svo ekki sé minnst á að trú er ekki mælanlegur veruleiki heldur snýst um tengsl,“ segir Guðbjörg.

Henni finnst jákvætt að fólk hafi fleiri valkosti hvað varðar athafnir. „Ég held að við lífslok séu hefðirnar mjög fastar í sessi og þá hefur fólk líka með öðrum hætti þörf fyrir að hafa helgisiði til að setja kveðjustund í farveg og þörf til þess að hafa einhver þrep til að hefja sorgarúrvinnsluna. Þannig að þótt kristnum úförum fari að fækka held ég að þörfin fyrir helgisiðina og farveginn sem athafnirnar veita breytist ekki. Um leið er fækkun athafna ákall um að við endurskoðum margt hjá okkur, ekki síst er snýr að skírnum og hjónavígslum,“ segir Guðbjörg.

Flaggað í hálfa stöng við Snartarstaðakirkju.
Flaggað í hálfa stöng við Snartarstaðakirkju. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Nán­ar er fjallað um hlut­verk þjóðkirkj­unn­ar í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. Þetta er þriðja greinin af þrem­ur um þjóðkirkj­una sem birt­ist í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. Grein­arn­ar eru meist­ara­verk­efni í blaða- og frétta­mennsku við Há­skóla Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert