Halldór nýr formaður þjóðleikhúsráðs

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri og rithöfundur hefur verið skipaður nýr formaður …
Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri og rithöfundur hefur verið skipaður nýr formaður þjóðleikhúsráðs. mbl.is/RAX

Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri og rithöfundur, er nýr formaður þjóðleikhúsráðs. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað þjóðleikhúsráð til næstu fjögurra ára, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu

All­ir full­trú­ar í þjóðleik­hús­ráði sögðu sig úr ráðinu fyrr í mánuðinum og var það gert svo um­sókn­ar­ferlið um starf þjóðleik­hús­stjóra sé hafið yfir all­an vafa um mögu­legt van­hæfi ein­stakra full­trúa í ráðinu.

Samkvæmt leiklistarlögum er þjóðleikhúsráð skipað fimm mönnum. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna. Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan en þrír eru skipaðir án tilnefningar.

Auk Halldórs sitja í ráðinu: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri, varaformaður ráðsins skipuð án tilnefningar, Pétur Gunnarsson rithöfundur skipaður án tilnefningar, Sigmundur Örn Arngrímsson leikari, tilnefndur af Félagi íslenskra leikara, og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands, tilnefnd af Félagi leikstjóra á Íslandi.

Varamenn í ráðinu eru Jóna Finnsdóttir, Magnús Árni Skúlason og Baldur Þórir Guðmundsson skipuð án tilnefningar, Karen María Jónsdóttir tilnefnd af Félagi íslenskra leikara og Arnbjörg María Daníelsen tilnefnd af Félagi leikstjóra á Íslandi.

Ráðið hefur störf á morgun og mun það meta hæfi umsækjenda og starfa með þjóðleikhússtjóra til næstu fjögurra ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert