Íhugar að leita til Evrópuráðsins vegna siðanefndar

Þórhildur Sinna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sinna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir forsætisnefnd Alþingis gjörspillta og hyggst leita leiða utan Alþingis til að fá mat á áliti siðanefnd Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hefði brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. 

Niðurstaða siðanefnd­ar, sem for­sæt­is­nefnd féllst á fyr­ir helgi, snýr að um­mæl­um Þór­hild­ar Sunnu um Ásmund Friðriks­son, þing­mann Sjálf­stæðis­flokks­ins. Um­mæl­in féllu í Silfr­inu og var Þór­hild­ur Sunna þar að ræða end­ur­greiðslur sem Ásmund­ur naut frá Alþingi á grund­velli skrán­inga í akst­urs­dag­bók hans.

„Ung kona í stjórnarandstöðu sem móðgaði miðaldra karl“

Þórhildur var í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og sagðist hún íhuga að leita til Evrópuráðsins vegna málsins. 

„Þetta er sama forsætisnefnd og klúðraði að öllu leyti allri málsmeðferð í klaustursmálinu en kýs að hengja sig í orðhengilshátt og gildisdóma um hvernig ég tjái mig en ekki um hvað eða hvort það sé satt eða logið og lítur framhjá öllum rökum um tjáningarfrelsi þingmanna og mínum skyldum til að tjá mig um atburði líðandi stundar. Ég kalla þá forsætisnefnd gjörspillta á samtryggingu karlaklíkunnar sem neitar að taka afstöðu til nokkurs nema bara mína framkomu ungrar konu í stjórnarandstöðu sem móðgaði miðaldra karl,“ sagði Þórhildur Sunna m.a. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 og segir hann álitið bindandi niðurstöðu og því sé málinu lokið innan þingsins. Þórhildur Sunna hyggst kanna aðra möguleika, líkt og vettvang Alþjóðaþingmannasambandsins, en mbl.is hefur ekki náð tali af henni vegna málsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka